föstudagur, 31. mars 2006

Marsannáll

Þá er komið að lokum þessa mánaðar og aldrei hann kemur til baka. Mánaðarannálsskrif stefna hraðbyri að því að verða að góðri og gamalgróinni hefð og því er mér ekki til setunnar boðið - ég bíð ykkur hins vegar að tylla ykkur á hana (tíhí).

Það tilkynnist hér með að ég kláraði ekki eina einustu bók í mars. Ég gluggaði vissulega í margar en hafði ekki eirð í mér til að sitja lengi við og lesa þær spjaldanna á milli. Reyndar kláraði ég eina bók, The Red Queen sem ég talaði um í síðasta mánaðarannál, en það er eiginlega hálfgert svindl að tala um sömu bókina í tveimur annálum, ég hleyp því yfir það.

Ég var ekki nærri því eins áhugalaus um kvikmyndir eins og um bækur og hafði ég alveg næga eirð í mér til að horfa á nokkrar þeirra (þær eru mun fljótar afgreiddar en bækur). Tvær myndir sá ég sem ég hef lengi verið á leiðinni að kíkja á: Magnoliu og Festen. Þá síðarnefndu hef ég verið á leiðinni að sjá alveg síðan við Baldur sáum uppfærslu á Veislunni í Þjóðleikhúsinu hér um árið. Þrælgóð mynd sem ég sé nú að Þjóðleikhúsinum hefur vel tekist að koma til skila.

Svo má ekki gleyma sjónvarpsefni sem ég hef mjög lengi ætlað að kíkja á og var hvað spenntust fyrir, það er Pride & Predjudice þáttaröðinni. Hún var alveg frábær, og þó mér hafi ekki tekist að fara eftir hernaðaráætlun minni og gera þættina að lærdómsgulrót, naut ég þess bara betur að horfa á þá í einni bendu.

Af öðru efni má nefna að ég horfði á myndirnar Pi og Mansfield Park, seinni seríuna af Riget og síðustu þættina af Nikolaj & Julie. Ágætt efni en afskaplega ólíkt.

Mánuðurinn var góður í alla staði og er því sama hvar drepið er niður. Það sem ber þó óneitanlega hæst er að ég byrjaði formlega á MA verkefninu mínu og beitti til þess mikilli talnasálfræði. Það merkilega við þessa tilraun er að hún tókst svona glimrandi vel, áður en ég vissi af var ég farin að lesa greinar og vinna að kaflaskrifum án þess að þurfa að snúa upp á handlegginn á sjálfri mér.

Annað ekki síður merkilegt er að við skötuhjú tókum okkur til og gerðumst meðlimir að Kaupmannahafnardeild AIESEC. Við byrjuðum á því að kíkja á kynningarfund hjá þeim og enduðum á því að skrá okkur í workshop á þeirra vegum sem við síðan sóttum einn góðan laugardag. Sá dagur var afspyrnu skemmtilegur enda nett lið á ferðinni. Nú erum við að tala saman sykurpúði!

Það sem telst til ómerkilegri atburða en ekki síður áhugaverðra er að ég lét undan alfræðiorðabókaunnandanum í mér og reyndi fyrir mér í alfræðiorðabókaskrifum, við Baldur gengum tímabundið í hlutverk Holmes og Watsonar, ég uppgötvaði að ég get hlustað á Bowie, varð síðan kvebbin og fór að þrá betri tíð með blóm í haga. Þá lærði ég að snúa lyklinum í rétta átt á nokkrum hurðum hússins, fann upp nýja upphrópun og hellti í fyrsta sinn upp á kaffi í hellukönnu.

Eins og sjá má á myndunum fyrir neðan bakaði ég líka pönnsur og það meira að segja tvisvar!

Svo stolt af pönnsunum og glöggir lesendur taka eftir Dannebrog.

Hvor er eiginlega sætari - Baldur broskall eða Pannsa broskelling?

fimmtudagur, 30. mars 2006

Öfugsnúið

Mér finnst það skjóta skökku við að portið okkar er krökkt af heillegum húsgögnum og húsmunum sem nágrannarnir hafa viljað losa sig við en hinum megin við götuna er skransala (ég kalla hana Notað og notaðra) sem einmitt selur notuð húsgögn og húsmuni - og þar er alltaf nóg að gera.

Hvað er málið? Nennir fólk ekki að koma mublunum sínum í verð? Ef eitthvað er að marka rennslið um Notað og notaðra er nefnilega alveg markaður fyrir þær. Eitthvað finnst mér þetta nú öfugsnúið.

Sófi, straubretti, pottaplanta og heil eldhúsinnrétting!

miðvikudagur, 29. mars 2006

Undir okkar áhrifum

Nágranninn okkar, þessi sem við skötuhjú hjöluðum um einu sinni, er skrýtin skrúfa. Þegar við fluttum inn hlustaði hann aðeins á tvö lög: Cool með Gwen Stefani og Tripping með Robbie Williams. Þegar ég segi hlustaði þá á ég við að hann spilaði lögin endurtekið heilu kvöldin. Þannig heyrði maður kannski lagið hans Robbie í hálftíma og síðan lagið hennar Gwen í hálftíma og svo aftur Robbie - allt kvöldið, alla vikuna.

Við gerðum okkur það meira að segja að leik að finna þessi tvö lög á netinu og spila þau reglulega hátt. Svo hinkruðum við eftir viðbrögðum að neðan og viti menn, aldrei brást það að stuttu síðar var sama lagið komið í græjurnar á gott blast hjá okkar manni. Frábær skemmtun!

Eftir að hann komst yfir þetta æði höfum við ekki orðið vör við önnur lög sem hann hefur tekið ástfóstri við. Svo um daginn, um svipað leyti og við tókum til í tónlistarmöppunni okkar og ég uppgötvaði Bowie, heyrði ég hann spila Under Pressure með Bowie og Queen. Ég tel þetta tvímælalaust vera dæmi um að hann sé undir okkar áhrifum.

Hann virðist hins vegar ekkert læknast af þeirri áráttu að spila sömu lögin trekk í trekk. Ef hann á annað borð setur Under Pressure á fóninn má maður búast við að heyra það alla vega fimm sinnum yfir daginn. Ég ætti að kynna hann fyrir Modern Love, það er svo flott.

þriðjudagur, 28. mars 2006

Jarm

Þá er ég búinn í fjármálaprófinu. Það gekk vel og tel ég mig fullnuma í hinum ýmsu fjármálum. Vissulega hafði ég ákveðið forskot þar sem ég hef búið í miklu návígi við steingeitur alla tíð.

Það var gaman að taka loksins próf í einhverskonar málvísindum og í raun og veru góð tilbreyting frá allri þessari viðskiptafræði. Ég mæli með því að allir læri að minnsta kosti eitt fjármál og hver veit nema meðalaldur kinda hækki þegar fólk fer að skilja þær.

mánudagur, 27. mars 2006

Hamletsaptótek

Að undanförnu hef ég nokkrum sinnum hjólað framhjá apóteki sem ber heitið Hamlet apotek. Hvert einasta skipti hugsa ég upp heila sögu á bak við nafnið og tilkomu þess. Gæti nafngiftin verið tilkomin af því að það stendur við Hamletsgötu eða býr eitthvað dýpra að baki? Auðvitað býr eitthvað annað og dýpra að baki.

Mér finnst sennilegt að apótekarinn heiti Kládíus og bjóði upp á sérlega hagkvæma eyrnadropa. Á notkunarleiðbeiningunum gæti staðið eitthvað um að þeir henti vel sem tækifærisgjöf fyrir nákomna og að helsta hliðarverkunin sé sú að sá sem þeirra neyti gangi aftur og mikil ógæfa geti hlotist af því að opna dropana. Kannski maður lesi leiðbeiningarnar með næsta pakka sem maður kaupir í apóteki, það er aldrei að vita...

sunnudagur, 26. mars 2006

Snjór og kaffi

Er það ekki svolítið kaldhæðið að daginn sem klukkan er færð yfir á sumartíma byrjar að snjóa? En við erum þó með á hreinu að það er kominn sumartími og því betur með á nótunum en þegar vetrartíminn skall á. Nú erum við sem sagt tveimur tímum á undan þeim sem eru á klakanum.

Annars hellti ég í fyrsta sinn upp á kaffi í hellukönnu/mokkakönnu í dag. Það var reyndar ekki fyrir mig heldur vildi ég koma Baldri á óvart. Ég verð nú að viðurkenna að ég var pínu skelfd þegar ég stóð við eldavélina og fylgdist með kaffinu bruggast. Ég hélt meira að segja á viskustykki sem ætlað var að verja mig ef eitthvað kæmi upp á, t.d. ef kannan tæki upp á því að springa í loft upp. Annað eins hefur nú gerst.

laugardagur, 25. mars 2006

AIESEC Workshop

Í hádeginu hjóluðum við Ásdís niður í CBS þar sem við hittum félaga okkar úr AIESEC. Við vissum ekki mikið um hvað væri í vændum en okkur hafði verið tjáð að það yrði skemmtilegt workshop.

Þátttakendum var skipt upp í fimm hópa og lenti ég í hópi nr. 1, eða Global Vikings eins og við kusum að kalla hann og Ásdís í hópi nr. 5, þær kölluðu sig Cookies. Ástæðurnar á bak við hópanöfnin voru að í hópnum mínum áttu allir það sameiginlegt að vera af norrænu bergi brotnir en einn var þar að auki hálfur Nígeríumaður. Nafngift Cookies var svo tilkomin að stöllunum þremur var réttur Aldi poki, orðalaust, sem var fullur af kexkökum.

Svo héldu hóparnir hver í sína áttina að leysa verkefni á ólíkum stöðum í skólanum. Þessi verkefni áttu það flest sameiginleg að snúast á einhvern hátt um samskipti og var þeim ætlað að styrkja þátttakendur á því sviði. Sem dæmi má nefna að í einni stofunni var hópnum mínum réttur kaðall og bundið fyrir augun á öllum og saman áttum við að mynda jafnarma þríhyrning úr kaðlinum. Eftir að þríhyrningurinn var fullkomnaður voru okkur rétt fimm A4 blöð og úr þeim áttum við að byggja eins háan turn og mögulegt var.

Önnur verkefni dagsins voru t.d. að koma á fundi í gegnum síma, leika atvinnuviðtal, taka þátt í World Café og síðast en ekki síst leysa morðgátu (stef: níunda sinfónía Beethovens).

Eftir langan, strangan og skemmtilegan dag var öllum liðum smalað í fundarsal þar sem flutt var hvatningarræða, okkur kenndur indverski AIESEC dansinn og þátttakendum tilkynnt að dagurinn hefði í raun verið keppni á milli liða. Verandi nefndur eftir goði fegurðar og góðra hluta er erfitt að vera hógvær en auðvitað unnu Global Vikings enda einvalalið sem lagði hug og hjarta í hvert einasta verkefni.

Glorsoltinn múgurinn hoppaði síðan á hjólin sín og saman hjóluðum við á stúdentagarða við Nørrebrogade og minntum við helst á rúllandi skrúðgöngu í myrkrinu. Á görðunum biðu okkar heitar pizzur og dynjandi tónlist, í stuttu máli þrusuteiti.

föstudagur, 24. mars 2006

Ofvitinn, upphrópun og brjóstahald

Ég tók á safninu um daginn bókina Ofvitann eftir Þórberg Þórðarson. Mér skilst hún sé mikil skemmtilesning svo ég hlakka til að byrja á henni.

Annars var ég að hjóla heim úr þrekinu í gær og hjólaði þar framhjá dúfu sem var á vappi um gangstéttina. Þegar ég hjólaði framhjá dúfunni tók hún upp á því að hefja sig til flugs og fara lágflug yfir hausinn á mér. Mín brást við með því að æpa upp yfir sig og það á frumlegan hátt: Úúúúíbaaa! Hvað er eiginlega málið með þessa upphrópun? Mér fannst þetta heldur vandræðalegt en þó aðallega ógeðslega fyndið.

Að lokum er það brandari sem mig langar að deila með ykkur sem er eiginlega of stuttur fyrir spaugsíðuna en mátulegur fyrir þessa. Og hann er svona, stuttur og laggóður: A dyslexic man walked into a bra.

fimmtudagur, 23. mars 2006

Girnilegt snarl

Þetta er eftirmiðdagssnarlið mitt því fimmtudagar eru til vítamína, steinefna og trefja - í stuttu máli sagt til heilsu og hollustu! Svo væri ekki verra að fá sér bolla af piparmyntutei.

miðvikudagur, 22. mars 2006

Þetta augnablik er ævintýr

Ég veit ekki hvað það segir um geðheilsuna að vakna með Lífsdansinn sönglandi í hausnum.

Við skulum dansa á rósum
í leiftrandi ljósum,
lífsmarkið setja hátt.
Hamingju leita og lífsdansinn þreyta í sátt.
Þetta augnablik er ævintýr
sem ekki líður hjá
og án þess verður lífið lítils virði.

Það er þó bót í máli að mér tókst að smita Baldur og nú er hann að flippa, haha!

mánudagur, 20. mars 2006

Algjör bilun

Það er algjör bilun að það hafi tekið mig tæpa átta mánuði að læra að muna í hvaða átt maður snýr lyklinum í skránni á þvottahússhurðinni.

Hins vegar má líta á björtu hliðarnar: ég get nú næstu sex mánuði sem við eigum eftir af dvölinni notið þess að snúa lyklinum í rétta átt!

Gítarpönnsur

Í gær stóð ég við stofugluggann og skoðaði mannlífið og eins og venjulega renndi ég augunum yfir það sem skransalinn á móti var með til sölu. Ekki var margt þar sem mig langaði í en þó stóð þarna gítargarmur sem mig langaði til að athuga betur.

Ég trítlaði yfir og rannsakaði gripinn. Þetta var svona ekta garmur til að leika sér að og skilja svo eftir þegar við förum aftur til Íslands. Það vantaði eina stilliskrúfu og svo var svona eitt og annað í ólagi. Ég spurði skransalann eitthvað út í hvað þessir hlutir kostuðu og hann svaraði því og gott betur því þarna stóð ég og rabbaði við gaurinn í a.m.k. korter. Að lokum ákvað ég að spyrja hvort hann ætti kanínueyrnasjónvarpsloftnet og lét hann mig þá hafa gaffal og loftnetssnúru, í boði hússins.

Ég rölti heim hinn ánægðasti, setti gaffalinn í gluggakistuna og tengdi við sjónvarpið. Viti menn! Þetta virkaði svona líka fínt og ekki var verra að Ásdís var komin á fullt í pönnukökubakstri en hvorki bláberjasulta né rjómi í húsinu svo ég stökk af stað í Dögnarann og á bakaleiðinni greip ég gítarinn með.

Þegar heim var komið hlammaði ég mér niður og raðaði í mig dýrindis pönnsum með rjóma og bláberjasultu, skreið svo yfir í hægindastólinn og horfði á The Odd Couple, svo fleiri pönnsur, meiri rjómi og að sjálfsögðu smá gítarglamur... Dæs, svona eiga sunnudagar að vera.

sunnudagur, 19. mars 2006

Bráðum kemur betri tíð

Veturinn í Danaveldi hefur verið mun kaldari en okkur grunaði að væri mögulegt. Því er það mikill léttir að sjá að vetur konungur (sem gerði vart við sig 16. nóvember) er að missa tökin og gefa eftir undan vorinu. Þýður vindur leikur nú um landann en ekki ískristalskuldinn sem bitið hefur í kinnar undanfarna fjóra mánuði.

Ég gruna danska veðráttu ekki um að ætla að stinga okkur í bakið með einhverju páskahreti eins og frænkan á Íslandi gerir iðulega. Mér varð hugsað til þessa í ljósi þess að það eru fjórar vikur til páska. Hvernig ætli viðri hér hjá okkur þá? Ég vona og geri fastlega ráð fyrir að við lifum þá í góðu vori með blómstrandi trjágreinum á hverju strái.

Eftir viku verður síðan skipt yfir í sumartíma sem þýðir að daginn lengir í kvöldendann. Ég sé því fram á löng vorkvöld og enn lengri sumarkvöld. Þar sem við erum nú búin að upplifa tvær árstíðir í Danmörku (yndislegt haust og kaldan en stilltan vetur) eigum við bara eftir að upplifa vorið og sumarið. Ég hlakka svo til að ég held ég baki bara pönnsur í dag.

föstudagur, 17. mars 2006

Skjótt skipast veður í lofti

Ég held að óhætt sé að segja að skjótt skipist veður í lofti. Fyrir rétt rúmri viku var ég varla komin af stað með meistararitgerðina en í dag er ég komin með drög að þremur köflum. Þá er ég líka búin að gera beinagrind að ritgerðinni og senda hana á leiðbeinandann. Það virkar greinilega vel að setja sér ákveðinn dag til að byrja, því þá byrjar maður nefnilega.

Ég er að plana að klára uppkastið að köflum 4 og 5 fyrir lok mánaðar, í byrjun næsta mánaðar stefni ég síðan á að hefja greiningu á viðtölunum. Ég er með ein sjö viðtöl til greiningar svo það ætti að taka sinn tíma. Ef ég hins vegar tek mið af því hve snögg ég var að hræra í þrjá kaflaræfla ætti mér að sækjast þetta vel.

Kannski ritgerðin verði eftir allt saman ekki þessi óyfirstíganlega og erfiða þrekraun sem ég hef gert mér í hugarlund.

fimmtudagur, 16. mars 2006

Gulrótin

Ég er öll að hressast af kvefinu, mér til mikillar gleði. Það er mér líka til mikillar gleði að Stella skvís lánaði mér Pride & Prejudice þættina frá BBC og ég get ekki beðið eftir að horfa á þá.

Ég má þó ekki horfa á þá alla í einu og því mótaði ég litla hernaðaráætlun. Ég ætla að gera þættina að (skærgulri) gulrót. Fyrir hvert fræðiplagg (grein eða kafli í bók) sem ég les og glósa upp úr má ég horfa á einn þátt. Ætli mér takist þetta?

Ég er allavega búin með eina grein úr bókinni Transnationalism from below og er að verða búin að glósa upp úr honum og ég er enn ekki búin að laumast í þættina. En þegar ég á annað borð er byrjuð á þáttunum er voðinn vís - Ó vei ó vei og voði stór, veit ég hvernig þetta fór!

miðvikudagur, 15. mars 2006

Í veikindaleyfi

Ég missti af tímanum í The Asian Mystique í gær, allt út af þessu leiðinda kvefi. Japan var til umræðu og myndin You Only Live Twice til sýningar, mynd frá 1967 um James Bond í Japan. Þar sem ég missi af myndinni verð ég að grípa til minna ráða og nú er ég búin að panta hana á bókasafnið. Það verður óneitanlega notalegra að hugge sig upp í sófa með poppskál og horfa á myndina en að kúldrast á stólunum í skólastofunni.

Annars ætti ég varla að vera að plana að horfa á enn aðra kvikmyndina, í þessum kvefveikindum hef ég nefnilega gert fátt annað en að gramsa í kvikmyndasafni heimilisins. Þar sem ég get ekki lesið í bók þegar ég er með augnkvef er fátt annað að gera í stöðunni. Að sjálfsögðu nýti ég mér lasheitin til að sleppa við öll húsverk.

þriðjudagur, 14. mars 2006

Íþróttahagfræðilegt uppistand

Í gær fór ég í tíma í Sports Economics og var glatt á hjalla. Kennarinn svoleiðis reitti af sér brandarana og bekkurinn hló með. Þetta minnti eiginlega meira á skemmtiatriði eða sjónvarpsþátt þar sem aðalmaðurinn er ekki alltaf upp á sviði heldur gengur um salinn og er einhvern veginn út um allt.

Í einni ferðinni um stofuna hætti hann allt í einu að tala og beindi vísifingri að einum nemendanna, bekkurinn fylgdist spenntur með. Eftir svolitla þögn segir kennarinn: You are tall, blonde and beautiful, step up on that table. Hann þurfti þá einhvern hávaxinn til að kíkja á myndvarpann. Þegar strákurinn sté niður spurði kennarinn hvernig þessi hálfa mínúta í frægðarljómanum hefði verið. Strákur kvað hana góða og ráðlagði kennarinn honum þá að láta það ekki stíga sér til höfuðs.

Þessi sami kennari notar líkt og góðir kennarar dæmi úr lífi sínu til að útskýra hitt og þetta. Einu þeirra var ætlað að útskýra að í fyrndinni hefði belgíska knattspyrnan verið töluvert ofar á blaði en hún er í dag. Í sögunni er hann ungur maður og var ástfanginn af fallegri stúlku. Eini gallinn var sá að knattspyrnumaður ársins í Belgíu var ástfanginn af sömu stúlkunni. Sagan fór svo þannig að Belginn krækti í dömuna en slíkt hefði vitanlega ekki gerst eins og belgíski boltinn er í dag. Síðan hnussar aðeins í kennaranum og hann segir: He gave her 15 years of mediocre happiness but with me she'd have had six months of fun!

Já svona er að læra viðskiptafræði.

mánudagur, 13. mars 2006

Hjóladraumur rætist

Í nótt dreymdi mig að ég hefði lagt hjólinu mínu á stað sem ég var ekki vanur að leggja því á. Þegar ég kom til að ná í það var einhver búinn að klippa lásinn og taka hjólið. Ekki var ég nú í neinu svakauppnámi yfir þessu en þegar ég vaknaði var ég samt mjög feginn að þetta hefði aðeins verið draumur. Auðvitað rættist draumurinn en sem betur fer var hann aðeins tempraðri í raunveruleikanum.

Dagurinn gekk sinn vanagang, ég hjólaði í skólann og svo á æfingu seinnipartinn. Að æfingu lokinni stekk ég á bak stálfáknum og hafði ekki hjólað lengi þegar keðjan slitnaði. Ég stökk af hjólinu, sótti keðjuna og rölti á hjólaverkstæði hverfisins. Viðgerðarmaðurinn skoðaði keðjuna og sagði hana of slitna til að það tæki því að gera við hana svo á morgun næ ég í hjólið með nýrri keðju.

Hjólakeðja er nú lítið annað en samansafn lása og vissulega tapaði ég hjólinu þó það verði aðeins í sólarhring. Niðurstaðan er því sú að ég er berdreyminn með eindæmum þó ég gæti þurft að afdramatísera og jarðbinda túlkunina áður en ég hleyp upp til handa og fóta og kæri þjófnað.

laugardagur, 11. mars 2006

Hvaða kjáni fann upp kvefið?

Kvebbin. Fyrsta stigs kvef. Ekki gaman. Fyrsta kvefið síðan ég flutti út, svo ég ætti kannski ekki að kvarta. Svo er alltaf von um að kvefið ágerist ekki heldur hjaðni áður en það nær til augna. Ef það nær hins vegar til augnanna er ég komin með þriðja stigs kvef. Þetta er æsispennandi atburðarás.

Þar sem ég vil alls ekki fá þriðja stigs kvef skellti ég í kraftmikla súpu með harissu í dag því chili er mitt ráð við kvefi. Reyndar er sólhattur það líka en mér hefur mistekist að nálgast hann hér svo ég verð að láta chili, mandarínur og vínber duga. Er ekki viss um að mjólkurglas og bakkelsi geri mikið gagn en ætla samt að fá mér það fyrir svefinn, sjá hvað setur. Vona að ég vakni hress á morgun. Ef ekki þá fæ ég mér meiri súpu og meiri chili. Atsjú.

föstudagur, 10. mars 2006

Að ordna hlutunum

Tónlistarskrárnar okkar fóru í algjöra köku um daginn þegar við vorum að prufa okkur áfram með iTunes. Þar sem við vorum ansi ánægð með fyrra fyrirkomulag leist okkur ekkert alltof vel á hvernig iTunes hafði tekið tónlistina okkar í bakaríið. Allar skrár af safnplötum og úr möppum með blönduðum lögum eins og jóla- og eurovisionmöppunni voru nú tvístraðar um allt svo ekki var lengur hægt að ganga í gömlu möppurnar og spila sín lög því þær voru galtómar.

Það voru ekki bara safnplöturnar okkar sem urður fyrir barðinu á iTunes heldur urðu möppur þeirra David Bowie, Frank Zappa, Madonnu, Neil Young, Nike Cave og Tim Buckley einnig illa úti. Útkoman var sú að yfir 600 tónlistarskrám hafði verið hent inn í hina óræðu og afspyrnu móðgandi möppu "Unknow Artists" og nú var það okkar að finna þeim sinn rétta samastað. Við urðum frekar pirruð, svo ekki sé meira sagt.

Það kom þó ýmislegt óvænt út úr þessu. Þegar við lögðum í þá miklu vinnu að endurraða öllum þvældu lögunum urðum við að sjálfsögðu að hlusta á mörg þeirra til að vita hvaða skrá við höfðum í höndunum. Ég veit að það var fátt sem kom Baldri á óvart enda allt tónlist sem hann hefur margoft hlustað á. Ég aftur á móti þekki minna til þessara tónlistarmanna og skemmti mér því stórvel við að ramba á skondna lagatitla eins og John, I'm Only Dancing, The Jean Genie, Waka-Jawaka, Cucamonga og What's The Ugliest Part Of You.

Það sem er þó merkilegast (og sem ekki hefði komið til hefðum við ekki neyðst til að taka til í tónlistarmöppunni okkar) er að ég uppgötvaði að ég þekkti til mun fleiri laga David Bowie en mig grunaði. Síðan þá hef ég af sjálfsdáðum verið að setja Bowie á fóninn. Það er met.

fimmtudagur, 9. mars 2006

Góð tala vísar á góða byrjun

Einhverra hluta vegna hef ég gaman af flottum dagsetningum. Ég kann ekkert fyrir mér í stjörnufræði eða talnaspeki eða hvað má kalla það heldur læt ég fagurfræðina alveg ráða för. Í gær stóð ég sjálfa mig að því að velta fyrir mér hvaða dagsetning í náinni framtíð væri kjörin til að byrja af alvöru á meistararitgerðinni. Nú er ég búin að vera á leiðinni að byrja á henni í nokkra mánuði, eða alveg síðan við fluttum út, en ekki tekist enn.

Í gær var ég sem sagt að velta vöngum yfir þessu og hafði þá nýverið uppgötvað mikilvægi þess að setja mér einn ákveðinn dag og geta sagt: Þarna byrjaði ég af alvöru á meistararitgerðinni. Og það mátti ekki vera hvaða tala sem er heldur einhver sem rímaði við mínar hugmyndir um talnafegurð.

Þegar ég kíkti í dagatalið blasti rétti dagurinn við mér: 9. mars 2006. Fagurfræðin fyrir mér liggur sem sagt í tölunum 090306. Ég ákváð á stundinni að sú dagsetning bæri höfuð og herðar yfir aðra nærliggjandi daga og væri þar með ótvíræður sigurvegari. Reyndar var ég pínu á taugum yfir því að dagurinn sjálfur rynni upp innan tólf stunda en ég lét það ekki angra mig of mikið.

Og svo hófst hinn merki dagur og ég tók að gera allt annað en að vinna í ritgerðinni: ég kíkti í brennslu í ræktinni, útbjó fínt hrísgrjónasalat, tók til og svo fram eftir götum. Ég velti þó einhverjum vöngum yfir ritgerðinni, lítillega, og að endingu fór ég að taka til í tölvunni sem, eins og allir vita, er bráðnauðsynlegur undanfari allra stórra verka. En hvorki leit ég í grein í tengslum við ritgerðina né skrifaði stakt orð í ritgerðinni allan daginn.

Þrátt fyrir það lít ég samt á þetta sem daginn sem ég byrjaði á ritgerðinni fyrir alvöru. Undirbúningurinn er nefnilega afskaplega mikilvægur fyrir góðan árangur svo ég tel daginn fyllilega teljast sem velheppnaðan upphafsdag. Svo er meira að segja pínu skemmtilega öfugsnúið að segjast hafa byrjað á ritgerðinni á degi sem maður einmitt kom ekki nærri henni.

miðvikudagur, 8. mars 2006

AIESEC kynningarfundur

Í gærkvöldi fórum við á kynningarfund hjá Kaupmannahafnardeild AIESEC til að kynnast starfsemi samtakanna og sjá hvaða kröfur við þyrftum að uppfylla til að sækja um starf í gegnum þau. Við fengum frábærar móttökur, fullt af fræðslu og fyrirlestur frá einum sem hafði farið til Malasíu og unnið hjá þarlendu fyrirtæki í 11 mánuði.

Þetta var allt með hinu fjölþjóðlegasta sniði því þarna var fólk frá Brasilíu, Hvíta-Rússlandi, Belgíu, Frakklandi og konan sem stjórnaði kynningunni var dönsk en talaði ensku með áströlskum hreim. Vart þarf að nefna að tveir Íslendingar voru viðstaddir.

Á fundinum kom í ljós að viðskiptafræðingar eru mjög eftirsóttir af fyrirtækjum sem eru í samstarfi við AIESEC og virðast mannfræðingar ekki síður vel staddir. Þetta kemur sér einkar vel fyrir okkur þar sem ég er menntaður í tilfinningagreind rostunga frá Finnlandi og Ásdís er útskrifuð frá enskum sósugerðarskóla. Þar vorum við heppin!

þriðjudagur, 7. mars 2006

M*A*S*H

Ég sótti fimmta tímann í The Asian Mystique í dag og umfjöllunarefnið var Kórea. Við fengum gestafyrirlesara frá CBS í heimsókn, prófessor Saxer, sem fræddi okkur um Kóreustríðið. Ég verð nú að segja að það kom mér á óvart hversu hrokafullur prófessor Saxer var og það stuðaði mig lítið eitt enda ekki vön öðru eins á minni háskólagöngu.

Hvað sem því leið var margt áhugavert sem prófessor Saxer sagði okkur af Kóreustríðinu, t.d. það að upphaflega hafi ekki verið talað um stríð heldur lögregluaðgerð og að landinu hafi aldrei verið ætlað að vera skipt upp í Norður og Suður Kóreu lengur en fram til 1950. Það væri því kaldhæðið að stríð sem aldrei átti að vera stríð stóð yfir í rúm þrjú ár og að aðskilnaðurinn sem átti að vera tímabundinn varir enn.

Með þessa vitneskju í kollinum og prófessorinn á bak og burt var tekið til við að horfa á myndina MASH. Sú er frá árinu 1970 og fjallar um bandarískt starfslið hersjúkrahúss í Kóreu á tímum Kóreustríðsins. Í reynd er hún þó ádeila á Víetnamstríðið sem hafði geisaði í nokkurn tíma og gerði enn þegar myndin var framleidd. Í myndinni eru ýmsar vísbendingar í þá veruna en þær fóru flestar fyrir ofan garð og neðan hjá okkur nemendum enda langt um liðið og fæst okkar fædd þegar stríðið átti sér stað.

Þar sem ég horfði oft á sjónvarpsþættina MASH á sínum tíma og hafði gaman af hlakkaði ég til að sjá myndina. Svo kom í ljós að mér fannst hún afskaplega leiðinleg og kjánaleg og alls ekki hafa staðist tímans tönn. En þó myndin hafi ekki staðið undir mínum væntingum fannst mér gaman að sjá aftur "Radar" og heyra hið óviðjafnanlega og kaldhæðna lag "Suicide is Painless".

mánudagur, 6. mars 2006

Talað undir rós

Kveikjan að þessari færslu var að stundum segir fólk að lífið sé dans á rósum. Í flestum tilfellum er fólk að reyna að segja á háfleygan máta að lífið sé ljúft og að hlutirnir gangi vel. Tel ég að um augljósa vitleysu sé að ræða því málsháttur nokkur segir að engin sé rós án þyrna. Hvað er líka dans á rósum annað en þyrnum stráð leið?

Þegar fólk segir að leiðin sé stráð þyrnum á það þá við að lífið sé dans á rósum? Kannski segir það að lífið sé dans á rósum þegar leiðin er þyrnum stráð? Kannski er þetta fólkið sem tvistar til að gleyma. Ef svo er þá gengur það vel.

sunnudagur, 5. mars 2006

Vatn

Ég hata strumpa!

Það er reyndar ekki allskostar rétt en nú vitið þið þó hver tónninn í næstu setningu á að hljóma. Ég hata hitaveitu Kaupmannahafnarborgar! Hitaveitu sem aldrei hitar eitt né neitt - allavega drífur það ekki hingað í nordvest, hvað þá upp á þriðju hæð.

Aldrei hefði ég trúað að ég ætti eftir að skrifa færslu um vatn en nú stendur svo á. Þannig er að vatn er fyrirbæri sem hefur leitað á huga minn síðan við fluttum hingað út - jafnvel lengur því ég var byrjuð að hafa áhyggjur af vatninu áður en við fluttum úr. Ég hafði til að mynda lesið að fyrir Íslendingum bragðaðist vatnið í Kaupmannahöfn sem sundlaugarvatn svo ég var ekkert of spennt. Þegar á hólminn var komið reyndist vatnið vel drykkjarhæft en það tók mig dágóðan tíma að venjast bragðinu og áferðinni sem starfar af kalkmagninu í vatninu.

Svo þeim áhyggju af vatni var lokið en raunum mínum tengdum vatni var langt frá því að vera lokið. Til að mynda er vatnið úr krananum aldrei nógu kalt þegar maður vill fá sér vatnsglas og það er aldrei nógu heitt þegar maður ætlar í uppvaskið. Þá ergir kalkið mig oft ansi mikið því það sest á all og reglulega þurfum við að vaska upp vatnskönnuna okkar því hún verður hvít af óhreinindum.

Verst finnst mér þó að hafa hvergi aðgang að miklu flæmi af vatni, vatni sem hægt er að stinga sér út í án þess að taka andköf af kulda, vatni sem er svo heitt að aumir vöðvar endurnýjast. Ég sakna óneitanlega sundlauganna og heitu pottanna að heiman en neita þó staðfesta því að þjást af heimþrá, til þess er ég of sátt í Danaveldi.

Holmes og Watson á vaktinni

Við Frederikssundvejbúar lifum vægast sagt viðburðarríku lífi. Til dæmis stefndi þetta laugardagskvöld jafnt og þétt í að verða ósköp rólegt kósí bíókvöld heima í stofu og snemma í háttinn.

Þau plön fóru vitanlega út um þúfur þegar ég, Sérlákur Holmes, byrjaði að horfa út um stofugluggann og rannsaka mannlífið. Rak ég þá haukfrán augun í logandi kerti á rakarastofunni á móti (ái) og ekki sála á svæðinu.

Ég sýni Dr. Watson óhugnaðinn og ákváðum við að gera lögreglu viðvart í (kerta) ljósi þess að öll gólf á næstu fjórum hæðum fyrir ofan eru úr timbri. Þeir á stöðinni tóku ábendingunni vel og sendu menn á svæðið sem ég svo fjarstýrði af svölunum.

Þar sem ég stóð á svölunum hef ég sjálfsagt minnt á geðsjúklinginn Neró því ég hafði brugðið á það ráð að vefja rauðu flísteppi um mig miðjan til að kuldinn biti síður á mig. Lögreglumennirnir, greinilega ýmsu vanir, létu sér hvergi bregða. Þeir stóðu svo smá stund og horfðu á kertin í gegnum glerið meðan þeir töluðu í talstöðvar og gáfu rapport.

Eina myndin sem náðist af Neró.

Ráðvilltur lögregluþjónn syngur lag Bubba, Ég hef staðið við gluggann.

Nú eru þeir farnir og stöndum við Watson í glugganum og bíðum átekta. Ekki hyggjum við á langa bið því við höfum þegar gert skyldu okkar sem leynilögreglur hverfisins.

laugardagur, 4. mars 2006

Alfræðiorðabókarunnandinn

Nú tókst mér örugglega að koma með lengstu eins orðs fyrirsögn á færslu sem um getur. Hún er þó, ótrúlegt en satt, lýsandi fyrir það sem ég ætla að segja ykkur frá, þ.e. mér sem alfræðibókarunnanda, og þess vegna fær hún að hanga óbreytt og löng.

Alfræðibókarunnandinn fæddist um daginn þegar ég álpaðist inn á íslensku Wikipediuna á netinu. Wikipedia er frjálst alfræðirit og er þess eðlis að hver sem er getur lagt sitt af mörkum til að byggja það upp og bæta. Síðan ég uppgötvaði Wikipediuna hef ég notað hana óspart til að lesa mér til um allt milli himins og jarðar - þarna finnur maður hvaðeina sem maður hefur áhuga á og ef ekki þá getur maður sjálfur brett upp ermar og bætt úr því.

Ég hafði fram að þessu aðeins lesið mér til á Wikipediunni en þennan tiltekna dag datt mér í hug að reyna fyrir mér í alfræðiorðabókar-skrifum. Ég ákvað að fara hefðbundna leið og velja einstaklinga til að fjalla um. Ég skrifaði fjórar smágreinar - stubba - um Simone de Beauvoir, E. E. Evans-Pritchard, Bronislaw Malinowski og Max Weber.

Það er einhver karllæg slagsíða í vali á viðfangsefni hjá mér en það kemur til af því að ég studdist við gamlar glósur úr BA náminu og því endurspeglar það í raun karllæga slagsíðu námsins. Ég hef þó fullan hug á því að bæta úr þessu þegar mér gefst tími til og skrifa stubba um Margaret Mead og Mary Douglas, tvo þekkta kvenskörunga innan mannfræðinnar.

föstudagur, 3. mars 2006

Jólapróf marsmánaðar

Sit á bókasafninu í CBS á Solbjerg Plads og get ekki annað en brosað þegar ég lít út um gluggann. Það kyngir niður þessum líka jólalegu bómullarhnoðrum og maður sér ekki nema svona 50-100m frá húsinu, æðislegt!

Það æðislegasta við þetta er þó að ég er kominn i jólaprófaskap og vinnueljan slík að annað eins hefur ekki sést hér um slóðir. Þessi undirmeðvitundartenging við jólapróf og vinnutarnir er þó með öllu laus við það stress sem slíkum tímabilum fylgir stundum. Þetta er semsagt bara jákvætt.

Ég verð bara eitthvað svo kraftmikill af allri þessari birtu. Ég minnist þess að fróður maður hafi einhverju sinni sagt mér að þegar snjór hefði þakið jörðina á björtum degi myndi ljósmagnið milljónfaldast þ.e.a.s. sex núllum væri bætt aftan við það lúmínamagn sem fyrir væri. Ég held að í augnablikinu séu því billjónsilljóngrilljónir lúmína í gangi ef tekið er tillit til hækkandi sólar og afleiðingarnar eru tóm hamingja.

miðvikudagur, 1. mars 2006

Allt er þá þrennt er

Ingivaldur klukkaði mig um daginn og mér finnst eintaklega viðeigandi að nota fyrsta dag marsmánaðar til að sinna því. Þetta ku vera mín þriðja klukkviðleitni, hinar tvær verandi fimman og sjöan. Látum á þetta reyna.

Fjórar vinnur:
Í bakarí (Heildsölubakaríið og Reynir bakari)
Á hestabúgarðinum Der Wiesenhof sumarið 1997 (á gistiheimilinu og veitingastaðnum)
Lagerstarfsmaður hjá Pharmaco
1818

Fjórar bíómyndir sem ég hef horft á aftur og aftur og aftur:
Grease
Dirty Dancing
Moulan Rouge
Amelie

Fjórar plötur sem ég hef hlustað á aftur og aftur og aftur:
Hárið - úr söngleiknum Hárið
Surfacing - Sarah McLachlan
Dimance a Bamako - Amadou & Mariam
The Keyboard King at STUDIO ONE - Jachie Mittoo

Fjórar bækur sem ég hef lesið aftur og aftur og aftur:
Dalur hestanna - Jane M. Auel
Vígslan - Elisabeth Haich
Þorpið sem svaf - Monique P. de Ladebat
Ævintýrabækur Enid Blyton

Fjórir staðir sem ég hef búið á:
Miðtúni 88 (1985-1989)
Þingási 34 (1989-2001)
Digranesvegi 70 (2001-2002)
Eggertsgötu 28 (2003-2005)

Fjórir sjónvarpsþættir sem ég fíla:
Frasier
Despó
Friends
Þættir David Attenboroughs

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt úti í hinum stóra heimi:
Salvador Dalí safnið í St. Petersburg, Flórída og Salvador & Gala Dalí húsið í Púbol, Spáni
Kulusuk
Andorra
Hollywood

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt á skerinu:
Látrabjarg
Vestmanneyjar
Hvítá í gúmmítuðru
Ásbyrgi

Fjórir réttir:
Smjörsteikt bleikja að hætti pabba og veiðifélaga
Grænn kostur
Ýmis tíningur frá tengdó
Margaríta frá Devito's

Fjórir staðir sem ég vildi heldur vera á:
Í potti 3 í Laugardalslaug á leið í gufuna
Á Grænum kosti
Á Súfistanum að dreypa á swiss mocha
Þar sem er yfir frostmarki