Eins og ég greindi frá í gær fórum við skötuhjúin að sjá sýninguna Veisluna sem nú er á fjölunum í Þjóðleikhúsinu. Í stuttu mál sagt þá er sýningin alveg glæsileg, fyrirtaksleiksýning sem kom mér svo sannarlega á óvart. Ég hafði í þokkabót ekki séð kvikmyndina og vissi því ekkert við hverju var að búast.
Þar sem sýningin er sýnd á Smíðaverkstæðinu var návígið við leikarana mikið og í raun upplifði maður sig sem hluta af gestunum í veislunni. Það gerði það að verkum að maður lifði sig frekar inn í þessa átakanlegu sögu og á köflum var erfitt að kyngja kökknum í hálsinum. Á öðrum köflum átti maður erfitt um andadrátt þegar mestu hláturrokurnar stóðu yfir.
En mikið svakalega eigum við Íslendingar góða leikara! Ég hvet alla eindregið að drífa sig að sjá þessa sýningu, þetta er alveg einstök upplifun og sérstakasta leiksýning sem ég hef nokkurn tímann farið að sjá.