þriðjudagur, 31. október 2006

Októberannáll

Þriðji seinasti mánaðarannállinn er kominn í loftið. Ég er að hugsa um að slá nýtt met: hafa hann örstuttan svo ég sleppi auðveldlega í þetta skiptið.

Nú, nú í stuttu máli þvældumst við frá Kaupmannahöfn til Kraká og Berlínar og þaðan til Íslands í október. Eins og vera ber sáum við margt áhugavert á ferð okkar, en Kraká í heild sinni er þó eitthvað sem ég mæli með, og sneið af sernik (ostakaka).

Við náðum líka að verða veik, sum okkar tvisvar meira að segja. Ég náði að lesa Cirque de Freak (góð), Tíma nornarinnar (sæmileg) og Eragon (æði) en glugga í enn fleiri eins og vera ber. Svo útskrifuðumst við, slöppuðum í kjölfarið af með tilheyrandi ferðum í heita potta og gufu Laugardalsins. Við fórum líka í þó nokkur matarboð og hittum ættingja eftir langa fjarveru. Búið :0)

Mjölfiðlaathygli með meiru

Enn heldur blessuð meistararitgerðin mér upptekinni. Maður hefði haldið að það væri nóg að púla við skrif heilt sumar og þá væri maður frjáls ferða sinna. En ég má víst ekki sitja á nýrri þekkingu eins og ormur á gulli svo ég er ánægð ef ég fæ tækifæri til að kynna niðurstöður rannsóknarinnar.

Í þessum töluðu orðum er ég að leggja lokahönd á erindi sem ég held á morgun í Árnagarði, stofu 201, þar sem ég kynni meistaraverkefnið (sjá nánar hér). Allir velkomnir, hefst klukkan 12:15, stundvíslega. Eins gott að ég mæti ekki of seint!

Í laugardagsblaði Moggans var áhugaverð umfjöllun um innflytjendamál á Íslandi og þar var einmitt greint frá helstu niðurstöðum rannsóknarinnar. Og í kvöldfréttum Stöðvar 2 áðan var viðtal við mig um rannsóknina. Eins og fréttamanna er háttur var blásið upp það sem þótti mest krassandi en það vill bara svo vel til að viðmælandi minn vildi einmitt að það kæmist á annarra vitorð þessi mismunun sem Pólverjar verða stundum fyrir. Ef einhver vill kíkja á viðtalið bendi ég á vef Stöðvar 2 eða einfaldlega smellið hér.

föstudagur, 27. október 2006

Horgubb

Nú er maður að skríða saman eftir önnur veikindi. Eftir stutta kraftasöfnun í kjölfar ólgusjávarveikindanna lagðist í undirritaðan bévítans hálsbólgufjandi. Óbermið dreifði sér svo út um allt höfuð og varð úr hið skemmtilegasta hauskvef.

Ekki fékk ég neinn hita en þreklítill var ég. Hef ég unnið á meininu með heitum böðum, tedrykkju, heimatilbúinni hvítlauksmixtúru og karríi. Rautt greip hefur einnig gefist ákaflega vel við bannsettum hóstanum.

Nú er komið að hinni vinsælu stjörnugjöf! Magapestin er án nokkurra tvímæla vinningshafinn í þessari keppni. Harkaleg, hröð, spennandi og það er henni til framdráttar að hvergi kom bráðkvedda nærri. Sérlega vönduð og áhrifarík, fær fyrir vikið fimm stjörnur af fimm mögulegum.

Kvefpestin var ekki eins þéttofin og var fléttan fremur óskýr. Það verður þó að segjast eins og er að hún fór hratt og vel af stað en úrvinnslan þynntist heldur þegar á leið. Kvefpestinni stendur helst fyrir þrifum ófrumleiki og hæg atburðarás.

Fyrir ofangreindar sakir hlýtur hún eina stjörnu af fimm mögulegum sem pest. Ófrumleiki og hæg atburðarás pestarinnar voru þó bætt upp af Þórbergi Þórðarsyni þar sem ég var fær um að lesa Bréf til Láru á meðan forynjan reið hér húsum. Heildareinkunn tímabilsins er því fimm stjörnur af fimm mögulegum og kann ég Þórbergi bestu þakkir fyrir.

miðvikudagur, 25. október 2006

Te, bækur og óútskýrð heimþrá

Ég kíkti í Smáralindina eftir kvöldmat meðan betri helmingur minn sat skyndihjálparnámskeið Rauða krossins í Hamraborginni. Ég var eitthvað eirðarlaus og fannst allt eins gott að rölta um verslunarmiðstöð með gjafakort upp í erminni eins og að sitja heima og ganga um gólf.

Það fyrsta sem ég gerði var að kíkja í Søstrene Grene enda hefur viðvarandi bláberjatesskortur hrjáð okkur mjög síðan við komum á klakann. Ekki nóg með að ég fann bæði bláberjate og epla/kanilte heldur fann ég þar að auki fyrir miklum söknuði eftir Kaupmannahöfn. Mér fannst ég hálfpartinn komin á Strikið en vissi samt að þegar ég stigi út úr búðinni tæki aðeins marmaragólf við en ekki reisuleg kirkja, mannmergð, harmónikkuleikur og blikkandi ljóslyklakippur til sölu af lágum kollum. Eitthvað lagðist það þungt á hjartað sem er nú orðið hálf danskt.

Ég komst síðan að því að hægt er að lækna heimþrá með því að kaupa sér eitthvað fallegt. Fyrir gjafakortið frá pabba keypti ég mér fimm góðar bækur sem ég ætla að smjatta á næstu daga. Ég mun hafa það mjög gott upp í baðstofu með bláberjate í annarri hönd og bækurnar Artemis Fowl - Blekkingin, Börnin í Skarkalagötu, Eragon, Kyrrðin talar og Stutt ágrip af sögu traktorsins á úkraínsku í hinni.

mánudagur, 23. október 2006

Útskrift og útvarpsviðtal

Við skötuhjú brautskráðumst á laugardaginn var frá Háskóla Íslands. Baldur fékk B.Sc. gráðu í viðskiptafræði og ég fékk M.A. gráðu í mannfræði, brautskráðist meira að segja með ágætiseinkunnina 9,33 :0)

Eftir athöfnina í Háskólabíó vorum við með lítið útskriftarteiti á Þinghólsbrautinni. Við fengum marga góða gesti til okkar og margt góðra gjafa. Við þökkum kærlega fyrir okkur og njótum þess nú að ganga um húsið sem skyndilega er úttroðið af marglitum blómvöndum.

Á sjálfan útskriftardaginn fékk ég símhringingu frá Ólöfu Rún á Rás 1, hún bað mig um að koma í viðtal í morgunþáttinn sinn á mánudagsmorgni. Og þar sem ég er einstaklega hjálpleg samþykkti ég það og reif mig upp snemma í morgun til að mæta á Morgunvaktina og fjalla um rannsóknina mína. Þeir sem hafa áhuga á að heyra viðtalið geta gert það með því að kíkja á ruv.is eða smella hér.

föstudagur, 20. október 2006

Ljúfa lífið

Hér á Íslandi eigum við í nokkrum erfiðleikum vegna umtalsverðs álags. Svo fátt eitt sé nefnt þarf á hverjum degi að ákveða hvað eigi að borða í kvöldmat og alltaf er hægt að undirbúa Indlands- og Asíuflakkið aðeins betur. Í stuttu máli, matseld og fríundirbúningur. Fjúff...

miðvikudagur, 18. október 2006

Kosturinn og bókakosturinn

Eitt af því sem ég hlakkaði mest til við að koma heim var að kíkja á Grænan kost. Hins vegar komu leiðinda pestir í veg fyrir að við sæktum staðinn heim fyrst um sinn. Í dag vorum við hins vegar orðin fullfrísk og auk þess komin með góða matarlyst svo spínatlasagna a la Kosturinn varð kvöldmaturinn.

Eins og hefð er fyrir kíktum við í Bókabúð Máls & Menningar eftir matinn enda er labbið milli staðanna tilvalið til meltingarrölts. Ég hef greinilega saknað þess að grúska í íslenskum bókum því ég var mest að vasast í þeim hillum.

Á endanum sannfærði ég sjálfa mig um að ég þyrfti nauðsynlega á góðri bók að halda til að hafa með í veskinu við brautskráninguna á laugardaginn. Ég lét því verða að því að kaupa bókina hans Árna Þórarinssonar, Tíma nornarinnar. Nú er bara að passa sig að klára hana ekki fyrir útskrift.

sunnudagur, 15. október 2006

Sjanghæuð

Í gær vorum við Ásdís ásamt froskamæðgunum Sjanghæuð í Holtagerðið af Kalla afa. Hittum við þar Pétur og Valeryiu og urðu þar fagnaðarfundir að vanda. Við fengum skýrslu af ferðalögum þeirra og þau af ferðaplönum okkar. Heilsudrykkur var á borðum þó aðeins einn sæti að honum.

laugardagur, 14. október 2006

Jarðvegurinn undirbúinn

Margir hafa varað mig við því að þegar til Indlands komi megi ég eiga von á skörpum skilum á milli þjóðfélagsstétta. Þar sem ég hef ekki hugmynd um hvernig best sé að undirbúa sjokk sem slíkt kann að valda er afar heppilegt að þessi skil séu mögulega að minnka, jafnt og þétt. Því er Indlandi pakkað í bómull í staðinn fyrir að klæða viðkvæma fætur úr norðri í sandala.

föstudagur, 13. október 2006

Upp og niður

Oft hefur spakt fólk haft á orði að lífsins ólgusjór gangi bæði upp og niður. Um þessar mundir gengur pest um landið þar sem lífsins ólgusjór tekur sér bólfestu í mögum fórnarlamba. Í mögum fólks hegðar hann sér alveg eins og annars staðar, hann gengur upp og niður.

Við erum óðum að hressast en dagurinn í dag verður hvíldardagur, enda ekki vanþörf á. Hlökkum hins vegar til að heilsa upp á vini og vandamenn hér á landi á.

þriðjudagur, 10. október 2006

Berlín - Þinghólsbraut

Erum komin á Þinghólsbrautina, njótum félagsskapar góðs fólks og allt er vel. Gömlu íslensku símanúmerin eru komin í gemsana.

laugardagur, 7. október 2006

Komin til Berlínar

Í gær komum við hingað til Berlínar með næturlest frá Kraká. Næturlest jafngildir ekki nætursvefni svo við tókum því með ró fyrsta daginn. Ekki get ég sagst vera Berlínarbolla eins og Kennedy sagði um sjálfan sig en hins vegar hef ég gaman af því að vera kominn til þessarar merku borgar.

Ekki vissi ég margt um hana annað en að þar hefðu margir merkir atburðir átt sér stað. Í dag var heldur betur fyllt upp í eyðurnar og skerpt á því hvaða mikilvægu atburðir þetta væru. Við skelltum okkur í göngutúr um borgina ásamt túrhestafjöld undir dyggri stjórn ástralskrar leiðsögukonu. Þessir túrar eru ókeypis og einu tekjur gædsins eru þjórfé ánægðra viðskiptavina.

Gangan hófst við sjálft Brandenburgarhlið og var fyrsti sögufyrirlesturinn haldinn þar fyrir framan, á franska torginu. Þegar styttunni, sem er á hliðinu miðju, var fyrst stillt upp var það stytta af gyðja friðar og sneri hún út yfir prússneska heimsveldið.

Svo liðu árin og Napóleon heimsótti staðinn. Eins og aðrir ferðalangar kippti hann með sér minjagripum og var styttan góða þar á meðal. Enn á ný liðu árin og Þjóðverjar endurheimtu styttuna. Henni var breytt lítillega og kallast nú gyðja sigurs og eins kaldhæðið og það er snýr hún að Pariser platz og bendir í þokkabót á franska sendiráðið.

Túrinn hélt svo áfram og voru ekki aðeins sagðar margar skemmtilegar sögur og áhugaverðir staðir skoðaðir heldur gaf leiðsögukonan okkur ótal ábendingar um hvað væri áhugavert í borginni og síðast en ekki síst hvaða söfn væri ókeypis að skoða.

Sýnisferðin var því akkúrat það sem við þurftum því nú vitum við þó hvað er að sjá í Berlín og hvernig borgin hefur bæði beint og óbeint tengst risaatburðum í veraldarsögunni. Mæli eindregið með New Berlin Tours. Hér sjáið þið svo mynd af okkur í túrnum (lengst til hægri).

fimmtudagur, 5. október 2006

Kraká kvödd

Eftir fimm daga í Kraká er kominn ferðahugur í okkur og ætlum við að halda í vesturátt í kvöld. Þó er ekki þar með sagt að við séum komin með leið á Kraká, þvert á móti hefur áhugi okkur vaxið dag frá degi og erum við harðákveðin í því að sækja borgina heim aftur.

Af því sem við höfum prófað og getum mælt með er að skoða Wawel kastalann, rölta um kirkjugarðinn í Kasimierz, kíkja á mjólkurbar og kaupa einstaklega ódýran (og stundum jafnvel ógirnilegan) pólskan mat.

Annars er pólskur matur alveg þrælfínn og af því sem við höfum reynt er ommeletta með jarðarberjasultu, kartöflupönnukökur með sýrðum rjóma (placki ziemniaczane), pierogi með kotasælu, rauðrófusúpa og rauðrófusalat og sveppasúpa borin fram í brauði. Svo má ekki gleyma pólska bakkelsinu en af því er mikið úrval í bakaríum borgarinnar og obwarzanki sem eru bragðgóðar brauðkringur seldar út um allan bæ í litlum vögnum.

Af því sem við náðum ekki að gera er að smakka pierogi með bláberjasultu, hlusta á klezmer músík í gyðingahverfinu gamla, heimsækja Nowa Huta kommúnistaarfleifðina, kíkja inn í Maríukirkjuna og sækja klassíska tónleika. En það þýðir líka að nú höfum við fullgilda ástæðu til að koma aftur seinna.

miðvikudagur, 4. október 2006

Tveir merkisstaðir

Í gær og í dag fórum við í stutta túra út fyrir borgina. Í bæði skiptin var það til að heimsækja merka staði sem vel að merkja eru á heimsminjalista UNESCO.

Í gær kíktum við í saltnámuna við Wieliczka en sú hefur verið starfrækt í 900 ár og er næstelsta náma Póllands. Það hljómar kannski ekki sérlega spennandi að heimsækja saltnámu en þegar ég segi að í saltnámunni sé að finna a.m.k. 60 kapellur með altari, styttum, gólfi, tröppum og ljósakrónum útskornu úr salti þá breytist það viðhorf vonandi. Saltnáman er mjög skemmtilegur staður til að heimsækja og ég get því hiklaust mælt með henni við þá sem hafa hugsað sér að kíkja til Kraká.

Í dag heimsóttum við bæinn Oswiecim en þar er að finna stærstu útrýmingarbúðir Þjóðverja úr seinni heimsstyrjöld. Við þekkjum bæinn betur undir heitinu sem Þjóðverjar gáfu bænum eftir hernám Póllands: Auschwitz. Við heimsóttum líka nærliggjandi Birkenau sem einnig gengur undir heitinu Auschwitz II.

Útrýmingarbúðirnar eru varðveittar til að mannkyn minnist þjáninga þeirra sem myrtir voru í seinni heimsstyrjöld. Það er áhrifaríkt að sjá timburskúrana sem stríðsfangar voru látnir hýrast í. Áhrifaríkast var þó að sjá gasklefa og brenniofna og alla munina sem teknir voru af fólki: ferðatöskur, skór, hárburstar og greiður, eldhúsáhöld og fatnaður og síðan nokkur tonn af mennsku hári.

mánudagur, 2. október 2006

Annar dagur í Kraká

Kraká leggst alltaf betur og betur í okkur. Fyrir það fyrsta er einstaklega auðvelt að ferðast hér um, bærinn er lítill svo maður fer allt fótgangandi og það er nánast ómögulegt að villast í Gamla bæ þar sem allar götur vísa til Aðaltorgsins. Þá er bærinn einnnig einstaklega snyrtilegur og við höfum veitt því eftirtekt að ruslatunnur eru alls staðar, og þær eru notaðar.

Þá spillir ekki að hér er ódýrt að borða á veitingastöðum, úrvalið í matvörubúðum er miklu meira en við eigum að venjast frá Íslandi eða Danmörku og fatnaður í verslunum er mjög smekklegur. Þá eru borgarbúar upp til hópa mjög vel til fara, enn eitt sem við erum ekki vön frá Kaupmannahöfn. Í samanburði við Pólverja í Kraká eru Íslendingar og Danir eins og rónar til fara, ég sver það.

Það sem af er Krakádvöl okkar höfum við verið ansi afkastamikil. Við höfum náð að blanda saman afslöppun, skoðunarferðum og verslunarferðum. Við erum búin að rölta um Gamla bæ, slappa af á kaffihúsi, strolla um Planty og kíkja á kastalann Wawel sem kúrir við ánna Vistúlu. Þá erum við búin að borða eins og kóngar, bæði skiptin á staðnum Chimera við ul. Sw. Anny 3, við mælum með honum. Af pólskum mat erum við tvisvar búin að fá okkur sernik sem er pólsk ostakaka, hún er góð.

Auk alls þessa erum við búin að kaupa hvorki meira né minna en tvö útskriftardress fyrir skvísuna. Nú þarf ég bara að ákveða hvort þeirra ég vil nota. Það er þó seinni tíma vandamál, nú er ég í fríi.

sunnudagur, 1. október 2006

Zapraszamy do Krakowa

Við erum stödd í hjarta Póllands um þessar mundir. Við flugum til Kraká snemma í morgun og erum því búin að vera hér í einn dag. Fram til þessa hefur reynsla okkar af borginni verið mjög góð. Sem betur fer eigum við þrjá heila daga eftir áður en við höldum héðan, það er nefnilega margt sem okkur langar að gera.

Kraká hefur um aldaraðir verið höfuðborg Póllands í menningarlegum, trúarlegum og félagslegum skilningi, þó Varsjá sé að sjálfsögðu sjálf höfuðborgin. Hér búa um 770 þúsund manns sem er þægileg stærð fyrir litlu Kaupmannahafnar-Íslendingana. Í þokkabót er miðbærinn einstaklega vel skipulagður. Kjarninn er Stare Miastro eða Gamli bær sem er umlukinn grænu svæði sem kallast Planty. Hjarta þessa kjarna er Rynek Glówny eða Aðalmarkaðstorgið sem á rætur að rekja aftur til miðalda og er stærsta sinnar tegundar í Evrópu.

Á miðju torginu er að finna gamla verslunarmiðstöð, Sukiennice eða Línhöllina, þar sem áður fóru fram viðskipti með klæði og fatnað. Á torginu stendur einnig Maríukirkjan, Kosciól Mariacki, en sú hefur tvo misháa turna. Sagan segir að tveir bræður hafi keppst um hvor gæti byggt hærri turn á kirkjuna. Þegar yngri bróðirinn varð að játa sig sigraðan af eldri bróður sínum náði hann hefndum með því að stinga hann til bana, og er hnífurinn víst geymdur á vísum stað innan kirkjunnar.

Önnur skemmtileg saga er á bak við lúðrablásturinn Hejnal sem heyra má úr hærri turni kirkjunnar á heila tímanum. Þá stingur út trompetinu turnvörður og spilar stefið Hejnal úr höfuðáttunum fjórum. Það áhugaverða er að stefið hættir í miðri nótu og segir sagan að á 12. öld hafi turnvörður nokkur, sem spilaði stefið til að vara við innrás Tatara, fengið ör í hálsinn í miðju stefi og síðan þá hafi það verið spilað á þann hátt.

En núna er sögustund lokið og ég ætla í háttinn til að vera til í slaginn í fyrramálið. Góðar stundir.