miðvikudagur, 18. október 2006

Kosturinn og bókakosturinn

Eitt af því sem ég hlakkaði mest til við að koma heim var að kíkja á Grænan kost. Hins vegar komu leiðinda pestir í veg fyrir að við sæktum staðinn heim fyrst um sinn. Í dag vorum við hins vegar orðin fullfrísk og auk þess komin með góða matarlyst svo spínatlasagna a la Kosturinn varð kvöldmaturinn.

Eins og hefð er fyrir kíktum við í Bókabúð Máls & Menningar eftir matinn enda er labbið milli staðanna tilvalið til meltingarrölts. Ég hef greinilega saknað þess að grúska í íslenskum bókum því ég var mest að vasast í þeim hillum.

Á endanum sannfærði ég sjálfa mig um að ég þyrfti nauðsynlega á góðri bók að halda til að hafa með í veskinu við brautskráninguna á laugardaginn. Ég lét því verða að því að kaupa bókina hans Árna Þórarinssonar, Tíma nornarinnar. Nú er bara að passa sig að klára hana ekki fyrir útskrift.

Engin ummæli: