miðvikudagur, 7. september 2005

Villist aftur

Það mætti ljúga því að mér að í hvert sinn sem ég geri eitthvað í fyrsta sinn hér í Kaupmannahöfn eigi það fyrir mér að liggja að villast. Um daginn villtist ég þegar ég mætti á minn fyrsta fund í mannfræðideild. Í dag var fyrsta kennslustundin og hefði ég hjólað heimanfrá mér hefði ég ekki átt möguleika á að villast enda leiðin um það bil svona: áfram eftir aðalbraut, áfram, áfram, til vinstri, til hægri, aftur til vinstri, komin. Sem sagt ofureinfalt.

Í þetta sinn kom ég hjólandi frá skólanum hans Baldurs og eftir að hafa legið yfir leiðinni á kortinu taldi ég mig tilbúna í slaginn. Þess ber að geta áður en lengra er haldið að um var að ræða einstaklega heitan og sólríkan dag...

Jæja, ég stíg á hjólfákinn góða og hjóla af stað, glöð og kát eins og venjulega. Eina sem ég átti að gera var að halda áfram þar til ég kæmi að Assistens Kirkegård á horni Nørrebro og Jagtvej og taldi ég það nú vera einfalt enda hjóla ég framhjá því horni daglega. En hvað sem því líður þá hjólaði ég í þessum mikla hita og var farin að finna ansi vel fyrir sólinni.

Eitthvað fannst mér leiðin orðin löng svo ég steig af hjólin og rýndi í kortið. Jú, jú, ég var á réttri leið, bara halda áfram, auðvitað ertu ekkert að villast, láttu ekki svona, treystu sjálfri þér - allt þetta flaug í gegnum huga minn.

Fimm mínútum seinna og orðin ansi þreytt á hjólreiðunum stansa ég í annað sinn til að rýna enn betur í kortið. Jæja, já, ekki nema 27 gatnamótum of langt til norðurs! Við þessa uppgötvun snérist ég á hæl og hjólaði eins hratt og orkubirgðir líkamans leyfðu.

Á undraverðan hátt kom ég á nákvæmlega réttum tíma en það keypti ég líka dýru verði: ég var sem nýskriðin úr gufubaði.

Engin ummæli: