mánudagur, 5. september 2005

Fyrsti dagur skóla og matarboð hjá froskum

Í dag var kynningarfundur fyrir erlenda nema hjá mannfræðideild KU. Eina sem ég vissi var að fundurinn færi fram í byggingu 18 og þar sem ég hafði sótt dönskunámskeið í byggingu 24 á Amager gerði ég ráð fyrir að bygging 18 væri spölkorn frá og hjólaði því kát og sæl yfir á gamlar slóðir.

Þegar þangað var komið kárnaði þó gamanið því enga byggingu 18 var þar að finna. Þá fór mig að gruna að mannfræðideild væri jafnvel á allt öðrum stað í bænum og leitaði því strax inn á næstu skrifstofu sem svo heppilega vildi til að sá um málefni erlendra stúdenta.

Þar fékk ég þær upplýsingar að mannfræðideild væri með alla sína starfsemi hinu megin í bænum, nánar tiltekið á Øster Farimagsgade nr. 5. Konan sem aðstoðaði mig var hin liðlegasta, hringdi í mannfræðideild til að fá leiðbeiningar um hvernig ég skyldi komast þangað, teiknaði leiðina á kort fyrir mig sem hún síðan gaf mér og sendi mig svo af stað með óskum um góða dvöl í Køben.

Þar sem ég var orðin svo sein hvort eð var fannst mér ekki taka því að hjóla í einum spreng og mæta löðursveitt á minn fyrsta fund mannfræðideildar og því tók ég því bara rólega í hjólaumferðinni.

Mannfræðideildina er að finna hjá CSS (Center for Sundhed og Samfund) sem er til húsa þar sem áður var Kommunehospitalet. CSS flutti inn í lok ágúst og því var enn hálfgerður nýbyggingar stíll á öllu þegar mig bar að garði. Engu að síður er um mjög huggulegt lokal að ræða með skemmtilegum hallargarði innan virkisveggjanna.

Mér tókst á undraverðan hátt að hafa uppi á hópnum sem ég tilheyrði en hann var á rölti um hallarsvæðið til að fá kynningu á aðstöðu nemenda.

Um kvöldið kíktum við síðan í mat til Stellu og Kristjáns og hittum þar fyrir Ernu og Sylviu. Maturinn og eftirrétturinn bragðaðist afbragðsvel og ekki spillti fyrir að fá að sitja í huggulegum sófa, við notalegt kertaljós, hlusta á góða tónlist og hlæja með skemmtilegu fólki. Takk kærlega fyrir okkur froskar og til hamingju með nýinnréttuðu íbúðina - okkur Baldri finnst við eiga smá í stofunni ykkar :)

1 ummæli:

baldur sagði...

Okkar var nú algerlega ánægjan, hvad gerir madur ekki fyrir tessar frábæru pizzur.