sunnudagur, 29. ágúst 2004

Birnirnir þrír

Í gær bökuðum við Ásdís þrjár speltpizzur. Ein var lítil, önnur miðlungs og sú þriðja risastór, hljómar svolítið eins og birnirnir þrír væru væntanlegir í mat.

Pizzan fyrir litla húninn var með pestói, kartöflum, rifnum mozzarella og pikkluðum hvítlauk úr papriku og chili legi, tímían var notað sem aðalkrydd á hana.

Bangsamömmupizzan var með pizzasósu (ala Solla), pestói, ferskum mozzarella, brokkólíi, rauðlauk, papriku og svona alls konar dóti.

Pizzan hans bangsapabba var langstærst en á hana settum við pizzasósu (ala Solla), rauðlauk, brokkólí og rifinn mozzarella. Það skal tekið fram að við náðum engan veginn að klára þessar dýrindispizzur þar sem birnirnir komu ekki og munum við reyna að ljúka verkinu í dag.

Í dag tókum við í notkun nýja gsm síma af gerðinni nokia 3200. Þetta virðast vera kostagripir og það er rosalega gaman að fikta í þeim :)

miðvikudagur, 25. ágúst 2004

Kostir og gallar

Nú er ég búinn í sumarprófum, jei! Aðalkosturinn við það að vera búinn er tvímælalaust að vera búinn. Aðalgallinn er hins vegar sá að það er mjög sterk vísbending um að sumarið sé að verða búið.

En að öllu vangaveltugamni slepptu ætla ég í tilefni dagsins að fara til hennar Sollu og fá mér hnetusteik.

þriðjudagur, 24. ágúst 2004

Maður með fortíð

Ég vona bara að það komi ekki í hausinn á mér seinna að hafa verið meðlimur í taflfélagi Reykjavíkur, gúlp... Kannski hafa Interpol þegar komist á snoðir um tengsl mín og þátttöku á einu stærsta skákmóti landsins.

Vonandi verður þó tekið tillit til þess að ég var nú aldrei neinn snillingur í skák.

Þetta lið!

Þetta er skrítinn heimur sem við búum í. Menn komast upp með ótrúlegustu hluti en liðið í bússaralandi dregur mörkin við alþjóðleg skákmót og hryðjuverk. Ég hef ekki fylgst með þessu máli en mér finnst það bara hljóma svo asnalega að sitja í gæsluvarðhaldi fyrir að taka þátt í alþjóðlegu skákmóti fyrir 12 árum. Hvað gerist eiginlega á þessum mótum? Eru það kannski skákmenn sem skipulögðu hinn fræga fund garðyrkjubænda í Öskjuhlíð?

fimmtudagur, 19. ágúst 2004

Heldur farið að fækka

Já nú er ættingjum mínum heldur farið að fækka hér á landi. Fyrst sneru Pési, Erna og Dagur með morgunflugi á þriðjudaginn til síns heima. Í hádegi sama dag yfirgáfu froskarnir okkur og í dag fara mamma og pabbi. Wellwell, ætli maður verði ekki bara að heimsækja eitthvað af þessu liði sjálfur úr því að það endist ekki lengur en raun ber vitni á hinum sólríka klaka.

sunnudagur, 15. ágúst 2004

Veisla verður að partýi

Í gær hélt Pétur afi upp á afmælið sitt, reyndar mingluðum við mamma okkur inn í dæmið svo hægt væri að kalla þetta 150 ára afmæli. Þegar veislan var komin vel af stað, fólk farið að borða og svoleiðis skaut upp kollinum umræða um muninn á veislu og partýi. Þar sem ég veit allt um svo marga hluti varð ég að skilgreina muninn einhvern veginn.

Skilgreiningin var eitthvað um að í partýi væri dansað upp á borðum en samkvæmt þeirri skilgreiningu eru mjög fá partý haldin. Í þessum gleðskap dansaði enginn upp á borði en þó breyttist hin frábæra veisla í þrusupartý. Það bara gerðist einhvern veginn, allt í einu voru allir í partýstuði og komin allt önnur stemning á svæðið. Reglan er því sú að þegar fólk er statt á réttum stað og er í partýstuði þá er partý og besservisserskilgreiningin mín sökkar. Það er nú ekki flóknara.

Það sem gerði þessa veislu svo sérdeilis vel heppnaða var hve mikið af skemmtilegu fólki, sem hittist allt of sjaldan, var samankomið. Eftir partýið setti stór hluti gestanna stefnuna á Thorvaldsen bar og djammaði þar fram á rauða nótt. Við Ásdís splittuðum að vísu aðeins fyrr enda reynir maður að vera skynsamur í samræmi við háan aldur.

föstudagur, 13. ágúst 2004

Bera menn enga virðingu fyrir köttum?

Já nú er það komið í hart. Það er ekki nóg með að mannfólkið lítilsvirði blessuð dýrin með slæmri meðferð og líkamlegu ofbeldi. Það er augljóst að nú hafa mennirnir áttað sig á því að hægt er að niðurlægja eitt og eitt dýr í einu og birta myndir af því um allar trissur. Skyldi þessi köttur vera sonur foreldra Davíðs Oddsonar en hvorki bróðir hans né systir?

Tekið skal fram að þessi færsla er skrifuð undir sterkum áhrifum sjóðstreyma og ársreikningagerðar íslenskra fyrirtækja og eru lesendur varaðir við framandi skopskyni af þeim sökum.

miðvikudagur, 11. ágúst 2004

Paranoid lestrarhestur

Í dag sannaðist endanlega reglan um hið alræmda próflestrarveður. Það hafa verið uppi getgátur meðal fræðimanna að manni fyndist veðrið bara vera gott þegar maður þyrfti að vera inni og lesa. En kommon! Hitamet og það tvo daga í röð... Próflestrarveðrið er alþjóðlegt samsæri til þess að halda niðri menntastigi heimsins og hvetja fólk til þess að deyfa hugsun sína með bjór og hakkísakk. Hvers vegna er það einmitt á svona dögum sem maður man eftir orðum Oscars Wilde um freistingar?

Nóg af bölsýni. Ég náði að læra heilan helling þrátt fyrir stöðugt áreiti alþjóðlegra hryðjuverkasamtaka og ég náði líka að fara út í sólina, lesa bók og gefa öndunum og gæsunum brauð. Ég er þrælsáttur.

mánudagur, 9. ágúst 2004

Vinnan búin og þá byrjar aðalvinnan

Já nú er unglingavinnan búin í bili. Eins og fyrirsögnin gefur til kynna þá þýðir það ekki að ég tjilli það sem eftir lifir ágústmánaðar, seiseinei. Núna fyrst get ég sinnt mínu aðalstarfi, náminu, af fullum krafti enda tvö sumarpróf í vændum. Ég passaði mig á því þegar ég skráði mig í próf að hafa þau eins fjölbreytt og unnt væri, reikningshald 1 og reikningshald 2. Víííí!

Eftir lærdóm dagsins fór ég í sund með mömmu, pabba og Degi frænda mínum frá Barcelona. Fyrir sundið stöldruðum aðeins hérna heima og drukkum chilieplaappelsínugreipgulrótasítrónuengifersafa. Við kíktum líka á þetta.

Ég hlusta mikið á náunga sem heitir Neil Young. Ér rakst á heimsíðuna hans hérna áðan og finnst hún barasta skrambi flott. Veljið bara linkinn framan á stuðaranum og þá streyma ljúfir tónar í stofuna. Ef einhver lesandi þekkir tónlistarmanninn ekki þá mæli ég eindregið með því að viðkomandi tékki á kauða, hann er of góður til að ignora.

sunnudagur, 1. ágúst 2004

Innipúkinn

Þessa verslunarmannahelgi líkt og flestar aðrar verslunarmannahelgar kaus ég að vera heima hjá mér. Ég gældi lítillega við þá hugmynd að kíkja eitthvað út úr húsi í gærkveldi en sá þann kost vænstan að kúra inni. Ég fór reyndar aðeins út að deginum, út í bíl og inní annað hús til að læra reikningshald með Kristjönu. Ég er nefnilega innipúki um verslunarmannahelgar. Þessa helgi nýti ég mér viðhorf sem ég lærði af norsku ofurhetjunni Elling. Hvers vegna að fara út þegar maður er kominn með svona fína íbúð? Til allrar hamingju bind ég mig ekki við þetta viðhorf aðra daga ársins.