miðvikudagur, 22. janúar 2014

Rjómakaramellur

Rjómakaramellur

Fyrir jólin pantaði ég sælgætishitamæli af netinu því mig hefur lengi langað að prófa að búa til karamellur. Síðast þegar ég bjó til karamellur, sem var fyrir áratug því við bjuggum á Digranesveginum þá, kom út úr því hörð karamella eins og í Daim. Sem er ekki svo slæmt í mínum bókum, en mig langaði að prófa að búa til mjúkar karamellur og öruggasta leiðin til þess er að nota hitamæli.
 
Það er í rauninni afskaplega auðvelt að búa til karamellur, en mér fannst svolítið stressandi að standa yfir kraumandi pottinum og bíða eftir að karamellan næði réttu hitastigi. Það tók miklu lengri tíma en ég hélt og það var meira en að segja það að ætla sér að sjá nákvæmt hitastig á mælinum.

Þessar karamellur eru þó biðarinnar virði. Vá! Bestu karamellur sem ég hef smakkað, hands down.

Uppskriftina fann ég á síðunni Joy of Baking. Hér eru nokkrar ráðleggingar frá Stephanie: Notið viðarsleif til að hræra með, sjóðið karamelluna í þykkbotna potti og notið hitamæli.

Áður en við hefjumst handa: Það er mjög mikilvægt er að hræra stöðugt í rjóma-sykurblöndinni fram að suðu til að tryggja að sykurinn bráðni alveg. Ellegar getur karamellan orðið kornótt. Í staðinn fyrir að hræra í blöndunni má mjúklega hreyfa pottinn á hellunni þannig að blandan fari af stað. Svo er ráð að þerra burt sykurinn sem slettist upp á hliðar pottsins með hitaþolnum bursta (dýfa honum í heitt vatn fyrst).
  
HVAÐ
360 ml rjómi
200 g sykur
140 g ljós púðursykur
80 ml ljóst síróp
1,5 tsk vanilludropar
1,5 tsk salt
13 g smjör (1 msk)
 
HVERNIG
1. Takið fram 20x20 sm form, klæðið með álpappír og smyrjið pappírinn með smjöri.
2. Takið fram rúmgóðan og þykkbotna pott (passið að hafa hann nægilega háan því blandan á eftir að freyða upp við suðu og haldast þannig þar til æskilegu hitastigi er náð). Hafið helluna undir á miðlungshita. Setjið saman rjómann, sykurinn og sírópið, hrærið vel.
3. Látið suðu koma upp og hrærið fram að því stöðugt í blöndunni með viðarsleif.
4. Þegar suðan kemur upp þerrið hliðar pottsins með vatnsbleyttum bursta og skellið hitamælinum ofan í pottinn. Passið að hann snerti ekki botn pottsins. Ekki hræra í blöndunni með sleifinni héðan af.
5. Sjóðið karamelluna á miðlungshita þar til karamellan hefur náð 121°C (eða 124°C fyrir harðari karamellu). Þetta tekur svolítinn tíma (ca 20 mín.). Hreyfið af og til pottinn þannig að blandan fari í rólega hringi í pottinum.
6. Þegar réttu hitistigi er náð takið þá pottinn af  hellunni og bætið strax út í vanillu, salti og smjöri. Hrærið saman.
7. Hellið karamellunni í formið og leyfið henni að kólna þar til hún hefur stífnað (allavega 2 tímar).
8. Takið fram beittan  hníf eða pizzahjól og skerið karamelluna í ferninga, ferhyrninga eða sívalninga. Vefjið hverri karamellu í bökunarpappír svo hún geymist betur (annars verður hún fyrr kornótt).
9. Geymið í loftþéttum umbúðum inní ísskáp í allt að viku.

Nú þarf maður ekki að kaupa sér Mackintosh dós fyrir næstu jól. Maður býr bara til besta molann sjálfur!
 
Rjómakaramellur
 
Rjómakaramellur
 
Rjómakaramellur
 
Rjómakaramellur
 
Rjómakaramellur
 
Rjómakaramellur
 
Rjómakaramellur
 
Rjómakaramellur
 
Rjómakaramellur

Engin ummæli: