miðvikudagur, 25. október 2006

Te, bækur og óútskýrð heimþrá

Ég kíkti í Smáralindina eftir kvöldmat meðan betri helmingur minn sat skyndihjálparnámskeið Rauða krossins í Hamraborginni. Ég var eitthvað eirðarlaus og fannst allt eins gott að rölta um verslunarmiðstöð með gjafakort upp í erminni eins og að sitja heima og ganga um gólf.

Það fyrsta sem ég gerði var að kíkja í Søstrene Grene enda hefur viðvarandi bláberjatesskortur hrjáð okkur mjög síðan við komum á klakann. Ekki nóg með að ég fann bæði bláberjate og epla/kanilte heldur fann ég þar að auki fyrir miklum söknuði eftir Kaupmannahöfn. Mér fannst ég hálfpartinn komin á Strikið en vissi samt að þegar ég stigi út úr búðinni tæki aðeins marmaragólf við en ekki reisuleg kirkja, mannmergð, harmónikkuleikur og blikkandi ljóslyklakippur til sölu af lágum kollum. Eitthvað lagðist það þungt á hjartað sem er nú orðið hálf danskt.

Ég komst síðan að því að hægt er að lækna heimþrá með því að kaupa sér eitthvað fallegt. Fyrir gjafakortið frá pabba keypti ég mér fimm góðar bækur sem ég ætla að smjatta á næstu daga. Ég mun hafa það mjög gott upp í baðstofu með bláberjate í annarri hönd og bækurnar Artemis Fowl - Blekkingin, Börnin í Skarkalagötu, Eragon, Kyrrðin talar og Stutt ágrip af sögu traktorsins á úkraínsku í hinni.

Engin ummæli: