laugardagur, 7. október 2006

Komin til Berlínar

Í gær komum við hingað til Berlínar með næturlest frá Kraká. Næturlest jafngildir ekki nætursvefni svo við tókum því með ró fyrsta daginn. Ekki get ég sagst vera Berlínarbolla eins og Kennedy sagði um sjálfan sig en hins vegar hef ég gaman af því að vera kominn til þessarar merku borgar.

Ekki vissi ég margt um hana annað en að þar hefðu margir merkir atburðir átt sér stað. Í dag var heldur betur fyllt upp í eyðurnar og skerpt á því hvaða mikilvægu atburðir þetta væru. Við skelltum okkur í göngutúr um borgina ásamt túrhestafjöld undir dyggri stjórn ástralskrar leiðsögukonu. Þessir túrar eru ókeypis og einu tekjur gædsins eru þjórfé ánægðra viðskiptavina.

Gangan hófst við sjálft Brandenburgarhlið og var fyrsti sögufyrirlesturinn haldinn þar fyrir framan, á franska torginu. Þegar styttunni, sem er á hliðinu miðju, var fyrst stillt upp var það stytta af gyðja friðar og sneri hún út yfir prússneska heimsveldið.

Svo liðu árin og Napóleon heimsótti staðinn. Eins og aðrir ferðalangar kippti hann með sér minjagripum og var styttan góða þar á meðal. Enn á ný liðu árin og Þjóðverjar endurheimtu styttuna. Henni var breytt lítillega og kallast nú gyðja sigurs og eins kaldhæðið og það er snýr hún að Pariser platz og bendir í þokkabót á franska sendiráðið.

Túrinn hélt svo áfram og voru ekki aðeins sagðar margar skemmtilegar sögur og áhugaverðir staðir skoðaðir heldur gaf leiðsögukonan okkur ótal ábendingar um hvað væri áhugavert í borginni og síðast en ekki síst hvaða söfn væri ókeypis að skoða.

Sýnisferðin var því akkúrat það sem við þurftum því nú vitum við þó hvað er að sjá í Berlín og hvernig borgin hefur bæði beint og óbeint tengst risaatburðum í veraldarsögunni. Mæli eindregið með New Berlin Tours. Hér sjáið þið svo mynd af okkur í túrnum (lengst til hægri).

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þið eruð nú komin gott betur en til Berlínar, ekki satt?