Veturinn í Danaveldi hefur verið mun kaldari en okkur grunaði að væri mögulegt. Því er það mikill léttir að sjá að vetur konungur (sem gerði vart við sig 16. nóvember) er að missa tökin og gefa eftir undan vorinu. Þýður vindur leikur nú um landann en ekki ískristalskuldinn sem bitið hefur í kinnar undanfarna fjóra mánuði.
Ég gruna danska veðráttu ekki um að ætla að stinga okkur í bakið með einhverju páskahreti eins og frænkan á Íslandi gerir iðulega. Mér varð hugsað til þessa í ljósi þess að það eru fjórar vikur til páska. Hvernig ætli viðri hér hjá okkur þá? Ég vona og geri fastlega ráð fyrir að við lifum þá í góðu vori með blómstrandi trjágreinum á hverju strái.
Eftir viku verður síðan skipt yfir í sumartíma sem þýðir að daginn lengir í kvöldendann. Ég sé því fram á löng vorkvöld og enn lengri sumarkvöld. Þar sem við erum nú búin að upplifa tvær árstíðir í Danmörku (yndislegt haust og kaldan en stilltan vetur) eigum við bara eftir að upplifa vorið og sumarið. Ég hlakka svo til að ég held ég baki bara pönnsur í dag.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli