Veturinn hefur haldið innreið sína í Danmörku og það sem verra er, hann hefur tyllt tánni í Kaupmannahöfn þar sem ég bý. Ég varð fyrst vör við hann í gær þegar ég uppgötvaði að fingurnir sem hömruðu á lyklaborðinu voru orðnir loppnir. Loppnar loppur á lyklaborði.
Baldur sýndi mér síðan hvíta en þunna mjöll á húsþökunum í bakgarðinum. Þar með var það staðfest, veturinn hafði í húmi nætur framið valdarán og velt haustinu úr sessi.
Í morgun voru nærliggjandi húsþök enn hvítari en í gær. Þá lokaði ég eldhúsglugganum og sagði "brr". Ég sveipaði mig meira að segja hyrnunni sem elsku mamma prjónaði fyrir mig og hún, ásamt fléttunni í hárinu, gerði það að verkum að ég var eins og ekta íslensk bóndakona, ef litið er framhjá fartölvunni að sjálfsögðu.
Í tilefni vetrar beið ég fram í myrkur og kveikti þá á 22 sprittkertum sem ég raðaði vandlega í gluggakistuna. Það tók ekki eins langan tíma og ég hélt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli