miðvikudagur, 16. nóvember 2005

Kosningaskróp og kvöldæfingar

Við hunsuðum sveitarstjórnarkosningarnar sem haldnar voru hér í Danmörku í gær. Við gældum við það frameftir degi að mæta með valgkortin okkar á afstemningssted, sem í okkar tilviki var í Grundtvigskolen, en við féllum frá þeirri hugmynd þegar við áttuðum okkur á því að við vissum ekkert um flokkana í framboði. Tilhugsunin um að kjósa óaðvitandi nýnasista var mér um megn og við viðurkenndum að lokum að við ættum ekkert erindi á þennan kjörfund.

Við kíktum í staðinn á bókasafnið og í Nørrebro Bycenter. Á þeim fyrrnefnda átt ég frátekna Atómsstöð Halldórs Laxness á íslensku og er það liður í viðleitni minni til að lesa meira af verkum Nóbelsskáldsins. Á þeim síðarnefnda fann ég síðan fína jógadýnu og ákvað ég á methraða að kaupa hana: engar vangaveltur fengu að trufla fyrir og gæðaathugun vöru var haldið í lágmarki.

Kvöldstundin var síðan ljúf sem aldrei fyrr. Ég sat upp í sófa og las í bók og náði að stoppa mig af eftir fyrsta kaflann, lagði þá frá mér bókina og tók þess í stað að gera jógaæfingar á nýju dýnunni. Ég fylgdi bæði leiðbeiningum af jógadisknum góða og úr bókinni okkar Complete Stretching. Hraðkeypta dýnan reyndist vel og kvöldæfingarnar reyndust afskaplega róandi og afslappandi.

Til að setja punktinn yfir i-ið vorum við komin upp í rúm fyrir miðnætti, það hefur okkur ekki tekist í langan tíma.

Engin ummæli: