laugardagur, 4. mars 2006

Alfræðiorðabókarunnandinn

Nú tókst mér örugglega að koma með lengstu eins orðs fyrirsögn á færslu sem um getur. Hún er þó, ótrúlegt en satt, lýsandi fyrir það sem ég ætla að segja ykkur frá, þ.e. mér sem alfræðibókarunnanda, og þess vegna fær hún að hanga óbreytt og löng.

Alfræðibókarunnandinn fæddist um daginn þegar ég álpaðist inn á íslensku Wikipediuna á netinu. Wikipedia er frjálst alfræðirit og er þess eðlis að hver sem er getur lagt sitt af mörkum til að byggja það upp og bæta. Síðan ég uppgötvaði Wikipediuna hef ég notað hana óspart til að lesa mér til um allt milli himins og jarðar - þarna finnur maður hvaðeina sem maður hefur áhuga á og ef ekki þá getur maður sjálfur brett upp ermar og bætt úr því.

Ég hafði fram að þessu aðeins lesið mér til á Wikipediunni en þennan tiltekna dag datt mér í hug að reyna fyrir mér í alfræðiorðabókar-skrifum. Ég ákvað að fara hefðbundna leið og velja einstaklinga til að fjalla um. Ég skrifaði fjórar smágreinar - stubba - um Simone de Beauvoir, E. E. Evans-Pritchard, Bronislaw Malinowski og Max Weber.

Það er einhver karllæg slagsíða í vali á viðfangsefni hjá mér en það kemur til af því að ég studdist við gamlar glósur úr BA náminu og því endurspeglar það í raun karllæga slagsíðu námsins. Ég hef þó fullan hug á því að bæta úr þessu þegar mér gefst tími til og skrifa stubba um Margaret Mead og Mary Douglas, tvo þekkta kvenskörunga innan mannfræðinnar.

Engin ummæli: