Einhverra hluta vegna hef ég gaman af flottum dagsetningum. Ég kann ekkert fyrir mér í stjörnufræði eða talnaspeki eða hvað má kalla það heldur læt ég fagurfræðina alveg ráða för. Í gær stóð ég sjálfa mig að því að velta fyrir mér hvaða dagsetning í náinni framtíð væri kjörin til að byrja af alvöru á meistararitgerðinni. Nú er ég búin að vera á leiðinni að byrja á henni í nokkra mánuði, eða alveg síðan við fluttum út, en ekki tekist enn.
Í gær var ég sem sagt að velta vöngum yfir þessu og hafði þá nýverið uppgötvað mikilvægi þess að setja mér einn ákveðinn dag og geta sagt: Þarna byrjaði ég af alvöru á meistararitgerðinni. Og það mátti ekki vera hvaða tala sem er heldur einhver sem rímaði við mínar hugmyndir um talnafegurð.
Þegar ég kíkti í dagatalið blasti rétti dagurinn við mér: 9. mars 2006. Fagurfræðin fyrir mér liggur sem sagt í tölunum 090306. Ég ákváð á stundinni að sú dagsetning bæri höfuð og herðar yfir aðra nærliggjandi daga og væri þar með ótvíræður sigurvegari. Reyndar var ég pínu á taugum yfir því að dagurinn sjálfur rynni upp innan tólf stunda en ég lét það ekki angra mig of mikið.
Og svo hófst hinn merki dagur og ég tók að gera allt annað en að vinna í ritgerðinni: ég kíkti í brennslu í ræktinni, útbjó fínt hrísgrjónasalat, tók til og svo fram eftir götum. Ég velti þó einhverjum vöngum yfir ritgerðinni, lítillega, og að endingu fór ég að taka til í tölvunni sem, eins og allir vita, er bráðnauðsynlegur undanfari allra stórra verka. En hvorki leit ég í grein í tengslum við ritgerðina né skrifaði stakt orð í ritgerðinni allan daginn.
Þrátt fyrir það lít ég samt á þetta sem daginn sem ég byrjaði á ritgerðinni fyrir alvöru. Undirbúningurinn er nefnilega afskaplega mikilvægur fyrir góðan árangur svo ég tel daginn fyllilega teljast sem velheppnaðan upphafsdag. Svo er meira að segja pínu skemmtilega öfugsnúið að segjast hafa byrjað á ritgerðinni á degi sem maður einmitt kom ekki nærri henni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli