þriðjudagur, 7. mars 2006

M*A*S*H

Ég sótti fimmta tímann í The Asian Mystique í dag og umfjöllunarefnið var Kórea. Við fengum gestafyrirlesara frá CBS í heimsókn, prófessor Saxer, sem fræddi okkur um Kóreustríðið. Ég verð nú að segja að það kom mér á óvart hversu hrokafullur prófessor Saxer var og það stuðaði mig lítið eitt enda ekki vön öðru eins á minni háskólagöngu.

Hvað sem því leið var margt áhugavert sem prófessor Saxer sagði okkur af Kóreustríðinu, t.d. það að upphaflega hafi ekki verið talað um stríð heldur lögregluaðgerð og að landinu hafi aldrei verið ætlað að vera skipt upp í Norður og Suður Kóreu lengur en fram til 1950. Það væri því kaldhæðið að stríð sem aldrei átti að vera stríð stóð yfir í rúm þrjú ár og að aðskilnaðurinn sem átti að vera tímabundinn varir enn.

Með þessa vitneskju í kollinum og prófessorinn á bak og burt var tekið til við að horfa á myndina MASH. Sú er frá árinu 1970 og fjallar um bandarískt starfslið hersjúkrahúss í Kóreu á tímum Kóreustríðsins. Í reynd er hún þó ádeila á Víetnamstríðið sem hafði geisaði í nokkurn tíma og gerði enn þegar myndin var framleidd. Í myndinni eru ýmsar vísbendingar í þá veruna en þær fóru flestar fyrir ofan garð og neðan hjá okkur nemendum enda langt um liðið og fæst okkar fædd þegar stríðið átti sér stað.

Þar sem ég horfði oft á sjónvarpsþættina MASH á sínum tíma og hafði gaman af hlakkaði ég til að sjá myndina. Svo kom í ljós að mér fannst hún afskaplega leiðinleg og kjánaleg og alls ekki hafa staðist tímans tönn. En þó myndin hafi ekki staðið undir mínum væntingum fannst mér gaman að sjá aftur "Radar" og heyra hið óviðjafnanlega og kaldhæðna lag "Suicide is Painless".

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Fenguð þið líka að vita að það er einum amerískum herforingja að þakka að ástandið er (líklega) eins og það er í dag. Hann ákvað að ráðast inn í Kína þegar þeir voru búnir að ná allri Kóreu. En drekinn vaknaði og sparkaði þeim suður fyrir 38. breiddargráðu.

[segjum svo að sögufyrirlestrar og önnur óhamingja hafi ekki skilið eitthvað eftir sig í mr ;)]

ásdís maría sagði...

Já, eitthvað rámar mig í þetta, þess ber þó að geta að prófessor Saxer talaði hratt og tiltölulega óskýrt.

Annars aðdáunarvert minni af þinni hálfu, ég man ekki einu sinni eftir að hafa heyrt á Kóreu minnst í sögutímum hjá Hauki!