Í hádeginu hjóluðum við Ásdís niður í CBS þar sem við hittum félaga okkar úr AIESEC. Við vissum ekki mikið um hvað væri í vændum en okkur hafði verið tjáð að það yrði skemmtilegt workshop.
Þátttakendum var skipt upp í fimm hópa og lenti ég í hópi nr. 1, eða Global Vikings eins og við kusum að kalla hann og Ásdís í hópi nr. 5, þær kölluðu sig Cookies. Ástæðurnar á bak við hópanöfnin voru að í hópnum mínum áttu allir það sameiginlegt að vera af norrænu bergi brotnir en einn var þar að auki hálfur Nígeríumaður. Nafngift Cookies var svo tilkomin að stöllunum þremur var réttur Aldi poki, orðalaust, sem var fullur af kexkökum.
Svo héldu hóparnir hver í sína áttina að leysa verkefni á ólíkum stöðum í skólanum. Þessi verkefni áttu það flest sameiginleg að snúast á einhvern hátt um samskipti og var þeim ætlað að styrkja þátttakendur á því sviði. Sem dæmi má nefna að í einni stofunni var hópnum mínum réttur kaðall og bundið fyrir augun á öllum og saman áttum við að mynda jafnarma þríhyrning úr kaðlinum. Eftir að þríhyrningurinn var fullkomnaður voru okkur rétt fimm A4 blöð og úr þeim áttum við að byggja eins háan turn og mögulegt var.
Önnur verkefni dagsins voru t.d. að koma á fundi í gegnum síma, leika atvinnuviðtal, taka þátt í World Café og síðast en ekki síst leysa morðgátu (stef: níunda sinfónía Beethovens).
Eftir langan, strangan og skemmtilegan dag var öllum liðum smalað í fundarsal þar sem flutt var hvatningarræða, okkur kenndur indverski AIESEC dansinn og þátttakendum tilkynnt að dagurinn hefði í raun verið keppni á milli liða. Verandi nefndur eftir goði fegurðar og góðra hluta er erfitt að vera hógvær en auðvitað unnu Global Vikings enda einvalalið sem lagði hug og hjarta í hvert einasta verkefni.
Glorsoltinn múgurinn hoppaði síðan á hjólin sín og saman hjóluðum við á stúdentagarða við Nørrebrogade og minntum við helst á rúllandi skrúðgöngu í myrkrinu. Á görðunum biðu okkar heitar pizzur og dynjandi tónlist, í stuttu máli þrusuteiti.
2 ummæli:
Baldur bestur!
Roðniroðni ;o)
Skrifa ummæli