miðvikudagur, 29. mars 2006

Undir okkar áhrifum

Nágranninn okkar, þessi sem við skötuhjú hjöluðum um einu sinni, er skrýtin skrúfa. Þegar við fluttum inn hlustaði hann aðeins á tvö lög: Cool með Gwen Stefani og Tripping með Robbie Williams. Þegar ég segi hlustaði þá á ég við að hann spilaði lögin endurtekið heilu kvöldin. Þannig heyrði maður kannski lagið hans Robbie í hálftíma og síðan lagið hennar Gwen í hálftíma og svo aftur Robbie - allt kvöldið, alla vikuna.

Við gerðum okkur það meira að segja að leik að finna þessi tvö lög á netinu og spila þau reglulega hátt. Svo hinkruðum við eftir viðbrögðum að neðan og viti menn, aldrei brást það að stuttu síðar var sama lagið komið í græjurnar á gott blast hjá okkar manni. Frábær skemmtun!

Eftir að hann komst yfir þetta æði höfum við ekki orðið vör við önnur lög sem hann hefur tekið ástfóstri við. Svo um daginn, um svipað leyti og við tókum til í tónlistarmöppunni okkar og ég uppgötvaði Bowie, heyrði ég hann spila Under Pressure með Bowie og Queen. Ég tel þetta tvímælalaust vera dæmi um að hann sé undir okkar áhrifum.

Hann virðist hins vegar ekkert læknast af þeirri áráttu að spila sömu lögin trekk í trekk. Ef hann á annað borð setur Under Pressure á fóninn má maður búast við að heyra það alla vega fimm sinnum yfir daginn. Ég ætti að kynna hann fyrir Modern Love, það er svo flott.

Engin ummæli: