föstudagur, 11. maí 2007

Lesið á svölunum

Ég las mikið í dag og ég eyddi miklum tíma á svölunum í dag. Því kemur kannski ekki á óvart að ég hafi lesið mikið á svölunum í dag.

Ég byrjaði á því að klára hina mjög svo áhugaverðu bók Jesus Lived in India. Um er að ræða sagnfræðilega rannsókn guðfræðings á því að líklegast hafi Jesú lifað krossfestinguna af, flust til Kasmírs eftir það og dáið í hárri elli. Grafreitur hans er meira að segja þekktur þar meðal heimamanna og er Jesú (eða Issa) álitinn heilagur maður á þessum slóðum.

Mér fannst mjög viðeigandi að klára sagnfræðilega nálgun á líf Jesú og fara beint yfir í heimspekilega nálgun á dæmisögur hans. Ég opnaði því bókina The Mustard Seed: The Gnostic Teachings of Jesus the Mystic sem indverski heimspekingurinn Osho skrifaði. Þar tekur hann fyrir nokkrar dæmisögur Jesú eins og þær koma fyrir í Tómasarguðspjalli, en það guðspjall fannst falið í hellum við Nag Hammadi í Egyptalandi árið 1945 og er af mörgum talið elsta og þar með upprunalegasta guðspjallið.

Svona bækur þarf að nálgast eins og smáskammtalækningar, maður má bara lesa smá í einu. Þess vegna las ég bara fyrstu kaflana og lét svo staðar numið. Ég tók fram Freakonomics, eitthvað léttmeti í samanburði við texta Oshos, og las áfram í sólinni á svölunum.

Seinnipartinn, þegar sólin var hætt að orna mér, fórum við að borða á Jimmy’s Italian Kitchen. Meðan við biðum eftir eftirréttinum blaðið ég í ljóðasafni sem ég fann í bókahillunni. Ég las nokkur ljóð eftir William Blake og hafði gaman af hrynjandinni, stuðlunum og ríminu.

Í bókinni var einnig að finna ljóð eftir William Wordsworth og við Baldur töluðum um hve skemmtilegt væri að ljóðskáld skyldi hljóta svona viðeigandi nafn. Vilhjálmur Orðavirði gerir sér grein fyrir virði orða og semur því ljóð. Freakonomics bókin lítur hins vegar ekki svona rómantískum augum á málið, hún bendir á að tölfræðin sýni að nöfn hafi engin áhrif á líf manns.

Dæmi: Bræðurnir Winner Lane og Loser Lane í Bandaríkjunum áttu mjög svo ólíka ævi. Winner varð bófi með langa sakaskrá, Loser varð sér úti um háskólagráðu og gerðist síðan yfirlögregluvarðstjóri. Svo mikið veit ég eftir að hafa lesið á svölunum.

Engin ummæli: