miðvikudagur, 7. júní 2006

Rocky

Kvikmyndin Rocky eftir Sylvester Stallone er ein af mínum uppáhaldsmyndum. Ég hef horft á hana nokkrum sinnum og alltaf nýt ég þess mjög og ekki síst fyrir þann innblástur sem myndin veitir mér.

Í myndinni er meðal annars sýnt frá æfingum Rockys t.d. þegar hann hleypur um götur Philadelphiu og almenningur sem er að hefja vinnudag hvetur hann áfram við hlaupin. Öllum að óvörum þá horfðum við Ásdís á myndina fyrir nokkrum dögum, einu sinni enn.

Síðan þá hefur Rocky veitt mér aukaorku við morgunæfingarnar. Æfingarnar byrja ég nánast undantekningalaust á því að taka hlaupaspretti og eitt skipti vildi þannig til að nokkuð margt var um manninn á svæðinu.

Ég læt það ekki á mig fá og byrja sprettina. Strax í öðrum spretti byrjar bláókunnugur maður að hvetja mig áfram við hlaupin og naut ég andlegs stuðnings hans um tveggja spretta skeið meðan hann gekk sína leið.

Þegar þessi náungi var farinn tók annar gaur upp þráðinn þar sem hann hafði hætt og þegar sá var var farinn fékk ég stuðning þriðja aðilans. Ég naut því ekki bara innblásturs kvikmyndarinnar því í morgun var ég Rocky.

Þetta er langt því frá að vera eina hvatningin eða innblásturinn því sem ég er í miðri æfingasyrpu, upphífingum og fleiru, fékk ég fjögurra manna áhorfendahóp. Allir voru þeir u.þ.b. 20 árum yngri en ég og vildu ólmir læra þessa hluti.

Fyrst vildu þeir þó athuga og bera saman vöðvana á mér og á sér. Ég lét þá vita að þeir hefðu allt til að bera til þess að verða tröllsterkir, svo hófust æfingar. Eftir spretthlaupin stilltum við okkur upp í hring og gerðum armbeygjur af miklum móð. Hei, hann gerir þær svo hratt! heyrðist kvakað úr hópnum, meiri hvatning í þessu kvaki en kvakandann grunaði.

Því næst voru það armbeygjur á annarri höndinni í einu, strákunum leist nú ekkert á blikuna en reyndu samt. Að lokum kenndi ég lærlingum mínum hvernig ætti að gera upphífingar og gekk það vel, ég fékk smáaukaæfingu út úr því þar sem ég þurfti alltaf að lyfta þeim upp á stöngina. Að lokum kvaddi ég hópinn og þeir spurðu hvort ég gæti ekki komið alla daga klukkan 11 því þá væru þeir í frímó. Ég sagðist sjá til.

Í heildina litið er gott að veita öðrum innblástur með því að vera fordæmi um heilbrigt líferni. Það besta er þó innblásturinn sem ég fæ sjálfur við það að sjá fordæmið bera ávöxt.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Rocky? Já, Stallone er líka fínn, og Rambó og svona... Treysti því að veðrið leiki við ykkur og allar góðar vættir verndi ykkur. Ég fæ kannski að lesa um það þegar stund gefst til að endurnýja Rocky sem af einhverjum ástæðum er kominn með finnskan hreim, finnst mér... Skyldi hann vera liðtækur þungarokkari?

baldur sagði...

Finnskur hreimur er viðloðandi þessa færslu og ekki laust við Eurovisionbrag, ábyggilega liðtækur þungarokkari :o)