miðvikudagur, 27. október 2010

Lífsreynsla fyrir allan peninginn

Undanfarna daga höfum við verið í höfuðvígi heilagleika hindúasiðs, Varanasi. Mig langar til að byrja þessa færslu á að mæla með borginni sem algeru mösti fyrir Indlandsfara af öllum gerðum. Um leið og við komum út úr lestinni frá Bodhgaya hófst fjörið, leigubílstjórar og útsendarar þeirra flykktust í kringum okkur og franska konu sem við hittum í þvögunni. Þetta er náttúrulega alvanalegt en fljótlega brá út af hefðinni og skemmtileg uppboðsstemning myndaðist, Slegið í fyrsta öðru ooooog þriðja: túristabúnt fyrir þig mæ frend!

Til að koma í veg fyrir svik og pretti, sem iðkaðir eru jöfnum höndum við heilagleikann, höfðum við pantað gistingu hóteli sem Lonely Planet mælti með. Bókin lýsti því sem svo að herbergin væru "large, clean and homely". Það reyndist á minni ensku vera "dark and dingy". Klukkan var orðin margt og við of þreytt til að sjoppa svo við fórum inn í dimman klefann og lögðumst til hvílu. Morguninn eftir fluttum við á frábært hótel við fyrsta hanagal og hittum þar vini, Noémi og Florent, sem voru með okkur í brúðkaupinu í Digha.

Svona brölt er allt hluti af reynslunni og þegar upp er staðið er þetta bara skemmtilegt, til að njóta fjallstinda þarf að heimsækja dalina líka. Varanasi er sannarlega full af hvoru tveggja. Gaman að fylgjast með sjálfum sér og sjá hvernig viðhorf til alls breytast um leið og maður hefur öruggt skjól: Gott hótelherbergi uppi á þakterras með útsýni yfir allan heiminn!

Terrasinn reyndist fullkominn staður til að fylgjast með tveimur aukasamgöngukerfum sem liggja ofanaá borginni. Fyrra kerfið er samgönguleið apanna, þeir hoppa þak af þaki og hvíla sig í skuggsælum skotum. Terrasinn okkar var vinsæll þar sem þar höfðu þeir bæði stóla og borð. Seinna kerfið var mun ofar og af öðrum toga. Hvern einasta eftirmiðdag þegar vindarnir breytast æfa þúsundir heimamanna á öllum aldri sig í að stýra heimasmíðuðum flugdrekum. Þann 14. janúar ár hvert er haldin flugdrekakeppni og er undirbúningurinn vægast sagt tilkomumikill, er samt hræddur um að fuglarnir séu ekki sammála mér.

Á neðri hæðum borgarinnar er engin einföld leið að neinu nema þá helst þegar gengið er upp eða niður með ánni. Nokkrar umferðaræðar liggja um borgina, allar fullar af mótorhjólum, beljum, sölubásum, mótor- og hjólarikkshawvögnum og stundum fílum. Aðrar samgönguleiðir þarf að fara fótgangandi þar sem þær liggja um eldgömul, kræklótt og örmjó miðaldastræti. Af fenginni reynslu get ég staðfest að það að ganga í flasið á svörtu risanauti í dimmu húsasundi seint að kveldi er ógleymanleg reynsla. Þar þarf að láta hart mæta hörðu en stundum er bara ekki pláss til þess og þá þarf að fara aðra leið. Í Varanasi telja menn það gæfumerki að stíga með vinstri fæti í mykju, heilladísirnar umvöfðu spúsu mína samkvæmt því -mikið lukkudýr þar á ferðinni.

Nokkrum sinnum gengum við upp og niður með Gangesfljóti og virtum fyrir okkur það sem fram fór. Þangað fer fólk til að baða sig, þvo þvott, bursta tennur, synda, hitta helga menn, fá rakstur og nudd, hugleiða og fylgja látnum til hinstu hvílu. Flest atriðin eru hirst og her með ánni en hið síðastnefnda er framkvæmt allan sólarhringinn á tveimur stöðum. Þar eru lík alla jafna brennd og í húsum þar við bíða aldraðir dauðans svo þeir megi leggjast til hinstu hvílu í hinu helga fljóti. Þó eru ekki allir brenndir. Börnum yngri en 10 ára, óléttum konum, fórnarlömbum kóbraslöngu, sadúum (helgum mönnum) og holdsveikum er hent út í ánna miðja án þess að eldur komi þar nærri. Ástæðan er sú að börnin, óléttu konurnar, sadúarnir og slöngufórnarlömbin þurfa ekki hreinsunareldinn þar sem þau eru hrein af heilagleika í gegn. Holdsveikir brenna víst með vondri lykt og klára dæmið því í næsta lífi.

Við heimsóttum báða brennslustaðina og horfðum á lík konu brennt, allt frá undirbúiningi og langt inn í syndahreinsunina, hvernig líkið varða smátt og smátt óþekkjanlegt. Einnig sáum við einn af þeim sem ekki hlaut bálköst á floti rétt hjá og verð ég að segja að bálkösturinn virkaði á mig sem eðlilegri leið í við þessar aðstæður. Fjölskyldur látinna stóðu þarna við og var áhugavert að standa svo nærri tímamótum annara, sjá siðina, lífið og dauðann. Þessu gleymir maður nú sennilega ekki.

Síðasta samgönguæðin sem við prófuðum var Ganges sjálf. Við lögðum í siglingu rétt fyrir sólarupprás til að sjá morgunverkin frá annari hlið, allt afskaplega litríkt lifandi og fallegt. Talandi um litríkt þá er í Varanasi haldin Puja (stærðarinnar trúarhátíð) hvert einasta kvöld. Möntrusöngur og hreinsunarathafnir á fullu gasi í u.þ.b. klukkustund. Fjöldi fólks mætir hvert einasta kvöld, syngur og leggur inn karma eftir bestu getur. Við tókum þátt í einni svona athöfn og fleyttum kertum á blómafylltum bananalaufsbátum sem ætlaðir voru fjölskyldum okkar. Önnur kvöld létum við duga að fylgjast með dýrðinni enda kappnóg fyrir augu og eyru að meðtaka.

Af öllu þessu má ætla að Varanasi sé skítug borg við mengaða á. Full af kúamykju, hundaskít, rusli og hráka. Það er líka alveg rétt, hún er stútfull af þessu öllu og í ánni fljóta lík fólks og hræ kúa auk þess sem magn saurgerla í hverjum lítra er þrjúþúsundfalt viðmiðunarmagn. Það er það magnaða við staðinn að þrátt fyrir akkúrat þetta skín sjarmerandi karakterinn í gegn, með kryddaðri reykelsisangan, og fer létt með það. Takk Varanasi.

4 ummæli:

Silla sagði...

Vá! Löngun mín til að fara til Varanasi hefur u.þ.b. þúsundfaldast við þessa lesningu og mig langaði mikið fyrir.

Nafnlaus sagði...

Skemmtileg lesning en ég held að kaffi Nova sé heppilegri staður fyrir mig. Hlakka til að hitta þig þar hvenær sem það nú verður.
En gangi ykkur vel og endilega verið dugleg að skrifa. Og svo meigið þið líka senda myndir.
Kveðja geiriiiiiiiiiiiiiiiiiii

Unknown sagði...

"til að njóta fjallstinda þarf að heimsækja dalina líka" - instant classic, þarf að nota þetta...
en hvað gerðist með nautið - var hlaupist á brott?

baldur sagði...

Þakka öllum fyrir fögur ummæli.

Silla, ég tek vitanlega kommisjón af ferð þinni þangað m.ö.o. deildu þinni Varanasi sögu með mér þegar hún er komin, ég hlakka til!

Ásgeir, hugsa reglulega til notalegra stunda á Novakaffi. Þar flæðir viskan í þúsundföldu hlutfalli við görótta blekbaunadrykki. Galdurinn er í gestunum og gestgjafanum.

Andri, þér er vitanlega heimilt að nota klassíkina: Eins og minn vitri mágur segir þarf maður að dadadada ;)

Varðandi nautið þá minni ég á að naut er ég sjálfur og læt sko ekki í minnipokann fyrir einhverri ruslapokaætur -jafvel þótt hún hafi fjóra maga!