sunnudagur, 13. maí 2007

Tíbetdagur

Í dag er ellefti dagurinn okkar hér í herbúðum Dalai Lama og því kominn tími til að skoða bústað hans, tíbetskt safn og nágrenni. Marseruðum við því þangað ásamt Nicolasi og Sörujean.

Safnið var alveg magnað og þóttu mér líkindi Kínverja og Hitlers og félaga oft óhugnanlega mikil, komu ekki á óvart en staðfestu aðrar heimildir. Eini meginmunurinn er sá að Kínverjar segjast vera að frelsa Tíbet í staðinn fyrir að nefna þetta þjóðernishreinsanir og kúgun. Á safninu eru munir, myndir, myndbönd og brot úr frásögnum pólitískra flóttamanna sem gengið hafa í gegnum ýmsa þrautina. Ekki veit ég hve lengi umheimurinn ætlar að hafa hausinn í sandinum þegar kemur að þessum hörmungum og súrt þykir manni að íslenska ríkisstjórnin lýsi bæði leynt og ljóst yfir stuðningi við Kínverja og furðulega blöndu þeirra af kommúnisma, nasisma og fasisma. Stundum á ég ekki til orð.

Á sömu lóð og safnið er á stendur klaustur Dalai Lama og skoðuðum við það og Búddahof þess. Í klaustrinu er fullt af bænahjólum en þau virka þannig að á þau er rituð með tíbetsku letri mantran om mani padme hum og í hvert sinn sem þeim er snúið fer mantran góða út í alheiminn. Í klaustrinu eru mörg lítil bænahjól en eitt alveg risastórt og vitanlega snerum við þeim öllum, bæðu stórum og smáum.

Til að kóróna ferðina með stæl gengum við inn á lóð tíbetska barnaskólans í þorpinu og horfðum á þjóðdansa og hlýddum á hjarðmannssöngva frá landi snjóljónsins, Tíbet. Í lokaatriðinu voru áhorfendur hvattir til að taka þátt, sem við að sjálfsögðu gerðum og vorum við landi og þjóð til sóma. Þess skal þó getið að grunnsporin virkuðu einfaldari úr sætunum en þegar á hólminn var komið.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Tíbetar eiga alla mína samúð.
Þetta er andstyggilegt ástand.