Klukkan var fimm að morgni og við vorum þrjú saman á lítilli skellinöðru: ég, Baldur og stjórnandinn á hótelinu okkar í Amritsar. Leið okkar lá að Kakkar spítala því Baldur var veikur, kominn með háan hita og með niðurgang af verstu gerð.
Á spítalanum tók sofandi vörðurinn á móti okkur og hleypti okkur inn á lítinn, tóman spítalann. Eftir stutta bið kom ungur maður til okkar, nuddandi stírurnar úr augunum. Hann var í gallabuxum og strigaskóm og það eina sem gaf til kynna að hér væri læknir á ferðinni var hlustunarpípan sem hann hafði slengt um háls sér. Hann tók að spyrja Baldur út í veikindin og tók púlsinn með því að halda um úlnliðinn. Því næst fékk hann Baldur til að leggjast á bekk og fór að þreifa á maga hans.
Þar sem Baldur kveinkaði sér mjög við þá skoðun dró læknirinn þá ályktun að um matareitrun væri að ræða, og þar sem hún var nú orðin tíu daga gömul skrifaði hann upp á sýklalyf og Aciloc til að kveða niður pestina. Eftir að hafa gefið okkur upplýsingar um lyfjagjöf og skammta virtist hann halda málið vera afgreitt. Við urðum sem sagt að draga upp úr honum ráðleggingar til sjúklingsins og hjúkkunar og þökk sé þeirri pressu mundi hann skyndilega eftir salt- og sykurlausnum sem nauðsynlegar eru við niðurgangi til að endurhlaða vatnsbirgðir líkamans.
Sem betur fer þurftum við ekki að leita langt eftir lyfjunum. Í næsta herbergi á spítalanum var apótekarinn vakinn og sitjandi á beddanum sínum afgreiddi hann pöntun okkar. Við yfirgáfum spítalann með lyf í poka og reikning sem hljóðaði upp á 138 rúpíur (220 kr.).
Sjúklingurinn er búinn að taka fyrsta skammtinn af sýklalyfjunum og liggur nú fyrir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli