föstudagur, 18. maí 2007

Sókrates og félagar

Í bókinni sem ég er að lesa um þessar mundir, The Mustard Seed, vitnar höfundurinn Osho oft í aðra heimspekinga, suma sem ég kannast við og aðra sem ég veit lítið sem ekkert um. Þannig setur hann boðskap Jesú í samhengi við austræna speki eins og Zen og Vedafræðin en einnig sálfræði og gríska speki. Þetta gerir hann til að koma í veg fyrir að fólk tengi Osho nafnið við ein trúarbrögð, trúarhóp eða heimspekistefnu.

Af þeim heimspekingum sem hann hefur minnst og sem ég hef áhuga á að kynna mér frekar eru Búdda, Mahavira, Zarathustra, Lao Tzu og Sókrates. Svo má ekki gleyma blessuðum Mulla Nasruddin, bókin er öll full af frásögnum af honum. Hann telst þó varla til heimspekings.

Eins og ég sagði þá var forvitni mín á hugmyndum þessara heimspekinga og verka vakin. Til að byrja einhversstaðar ákvað ég að kynna mér Sókrates fyrst. Ólíkt öðrum menntskælingum lærði ég ekkert um gríska heimspeki á sínum tíma og verð því að gjöra svo vel og viða að mér þeim upplýsingum núna, kæri ég mig um að vera lesin á því sviði.

Í gær hlóð ég semsé niður nokkrum vefsíðum með upplýsingum um Sókrates og heimspeki hans. Í dag settist ég svo spennt niður og hóf lesturinn. Ég rakst hins vegar fljótlega á vegg. Svo virðist nefnilega í pottinn búið að ef maður vill kynna sér Sókrates verður maður líka að kynna sér Plató, þar sem Sókrates skrifaði ekkert sjálfur og öll heimspeki hans er samankomin í ritum Platós. Vandamálið sem skapast við þetta fyrirkomulag er að erfitt er að greina á milli raddar hans og raddar Sókratesar. Svolítið eins og að reyna að greina dansarann frá dansinum.

Svo nú er ég aftur komin á netið, leitandi að upplýsingum um Plató svo ég geti frætt mig um Sókrates.

Engin ummæli: