laugardagur, 19. maí 2007

Vakin um miðja nótt

Í nótt dreymdi mig skringilega. Úti voru þrumur farnar að óma um himingeiminn og undirmeðvitundin skynjaði það og gerði úr því draum. Mér fannst sem sagt að einhver maður, sem ég skynjaði að ég þekkti, stæði í brekkunni fyrir neðan hótelið okkar og væri að magna upp þrumuveðrið. Það fyllti mig sérkennilegri tilfinningu, mér fannst það hálfóhuggulegt.

Og allt í einu var ég glaðvöknuð, veðrið úti sá til þess. Mér heyrðist vindurinn vera að færast í aukana svo ég stökk fram úr til að bjarga þvottinum af svölunum frá því að feykjast um allar sveitir. Þá var það hellidemba sem var skollin á en ekki vindur. Þvotturinn, hálfþurr aðeins einni mínútu fyrr, var nú orðinn rennblatur. Við Baldur bárum hann inn í eins miklum flýti og myrkrið leyfði okkur og fundum hverri flík stað í herbergi: handklæðin ofan á skápshurðirnar og hettupeysa með, gallabuxur á snaga inn á baðherbergi, bolur á handklæðaslá o.s.frv.

Það tók okkur síðan nokkra stund að sofna aftur, þrumurnar voru svo háværar, rigningin svo ofsafengin og eldingarnar svo bjartar að herbergi okkar minnti helst á diskótek. Þá stóð mér líka smá beygur af þrumuveðrinu eftir drauminn sérkennilega og í ofanálagt var ég alltaf að fara yfir það í huganum hvort allar flíkur væru komnar inn úr óveðrinu.

Núna er hins vegar kominn morgun og skínandi morgunsól. Þvotturinn er kominn út á svalir og þornar hratt og allur beygur er á bak og burt. Ég man ekki einu sinni eftir draumnum sem kallaði fram þennan beyg, hvað þá meir.

Engin ummæli: