miðvikudagur, 16. maí 2007

Í sporum stórstjörnu

Fyrir tilstilli Dalai Lama og Tíbetanna í McLeod Ganj er bærinn einskonar pílagrímsstaður fyrir búddista hvaðan að æva. Á meðal þeirra sem heimsótt hafa staðinn eru stórstjörnurnar Richard Gere, Goldie Hawn og Uma Thurman. Richard Gere er meira að segja í svo miklum metum hér á bæ, fyrir að vekja athygli á málstað Tíbeta, að í bígerð er kvikmynd úr smiðju Tíbeta sem kallast Richard Gere Is My Hero.

Þrátt fyrir allan þennan stjörnuljóma höfum við ekki rekist á neinar stórstjörnur. Engu að síður höfum við fengið okkar skerf því í kvöld þegar við vorum sest inn á veitingastað fengum við að vita að Pierce Brosnan, sjálfur James Bond, borðaði á staðnum ekki alls fyrir löngu. Og ekki nóg með það heldur sat Baldur í sama stól og Brosnan. Þjónninn kom meira segja með mynd af leikaranum því til staðfestingar. Og hann fræddi okkur um hvað Brosnan pantaði sér: chicken tikka masala, butter naan og bjór.

Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem Baldur og Bond fara saman. Sumarið 2001 héldum við í Evrópureisu og fyrsta stopp var London. Þar gistum við á fínu hóteli við Queen’s Gate Gardens. Svo skemmtilega vildi til að herbergið okkar var númer 007.

Einn morguninn var hringt í okkur inn á herbergi úr móttökunni og Baldur svaraði, nýlega vaknaður og ringlaður. Starfsmaður hótelsins hóf samtalið á því að ávarpa Baldur kurteisislega með eftirnafni. Hann átti hins vegar eitthvað erfitt með að bera fram Jóhannesson, svo mikið reyndar að Baldri fannst hann hljóta að vera að fara herbergisvillt. Til að hjálpa manngreyinu að átta sig á því að líklegast hefði hann hringt í rangt númer sagði Baldur hátt og snjallt í símtólið: This is Double O Seven. Eftir það fengum við alltaf sérstakt bros frá starfsfólkinu í móttökunni.

Engin ummæli: