fimmtudagur, 14. mars 2002

Blessaðar kanínurnar

Gærdagurinn var ansi skrýtinn skal ég segja ykkur. Við ákváðum að auglýsa eftir góðum heimilum fyrir kanínurnar okkar tvær því við getum ekki lengur haft þær í okkar pínulitlu íbúð. Við bjuggumst innilega ekki við neinum viðbrögðum því seinast þegar við auglýstum eftir heimili fyrir Kaníku hringdi einn. Gærdagurinn var hinsvegar allt öðruvísi, síminn hreinlega stoppaði ekki. Það var ágætt, þannig gátum við valið úr sjálf þá sem okkur leist best á og núna eru þær báðar farnar frá okkur, litlu börnin okkar.

Fyrir nokkrum dögum uppgötvuðum við nefnilega að Bjartur var strákur en Rúdólfína er stelpa þannig að nú dugðu enginn vettlingatök og "strákunum" var komið fyrir í sitthvoru búrinum. Með tvö stór búr í litlu þurrkakompunni hennar Kisu gekk búskapurinn ekki nógu vel, allt út í sagkubbum og alveg rosalegt ryk á öllu.

Við vorum náttúrulega hætt að sjá það eftir 5 mánaða sambúð með krílunum en í gær þegar þær voru báðar farnar og við brettum upp ermar og hófum tuskurnar á loft varð okkur ljóst sá óþrifnaður sem fylgir þessu. Reyndar væri ekkert mál að hafa kanínur í herbergi sem ekki væri með leiðslur og króka og kima upp eftir öllum veggjum. Það tók þónokkurn tíma að smeygja sér á milli allra þessa pípa til að ná í rykagnir.

En nú er það líka búið og eina sagið sem er í íbúðinni núna kemur frá Snæfríði Íslandssól hamstri, en hún er svo nett og hreinlát að ekki tjóir að tala um ryk af henni. Elsku strákarnir mínir, vonandi hafði þið það gott á nýjum heimilum ykkar, ég held að við Baldur eigum eftir að sakna ykkar meira en okkur grunar á þessari stundu.