miðvikudagur, 6. mars 2002

Svefnryk

Um helgina fórum við á bókaútsöluna í Perlunni og festum kaup í nokkrum bókum. Ég keypti m.a. Ljúlí, ljúlí eftir Guðrúnu Evu og kláraði hana í gær. Reyndar virðist eintakið hafa verið gallað því það vantaði endinn þar sem stóð eftirmáli. Í stað hans kom sami textinn og á fyrstu blaðsíðu, frekar tortryggilegt. Ég ætla að tékka á bókinni á bókasafninu og hrista af mér alla möguleika um að svona eigi þetta að vera áður en ég fer að hringja í útgáfufyrirtækið, hver veit, kannski er þetta hennar hugmynd að endi.

Hvað um það, ég var mjög ánægð með bókina og fannst hún vinna á undir lokin (fyrir utan þetta með endinn skiljanlega). Á einum stað í bókinni talar hún um hvernig það er þegar maður vaknar á morgnana alveg dauðsyfjaður og finnst eins og sandur sé undir augnlokunum. Ég kannast við tilfinninguna. Hún kallar þetta svefnryk og mér finnst það ágætisorð og ætla mér héðan í frá að nota það. Hún hefur líka gaman af því að breyta orðum, misskilningur verður að skilmysingi. Minnir mig á orðið fjölmiðlar sem varð mjölfiðlar, harhar.

Við fengum bílinn í hendurnar á mánudaginn og fórum strax í að snurfussa hann, henda kókflöskum og pússa innréttinguna. Við fórum síðan til pabba og þrifum bílinn inn í bílskúr, núna er hann eins og nýr. Ég þarf reyndar að venjast einu, Baldur tekur það svo svakalega alvarlega þegar hann er að keyra BANDARÍSKAN bíl að við sniglumst áfram. Hálfsorglegt að nota hestöflin ekki betur en Baldur nýtur þess í botn og það er víst vissara að halda í hesta sína í þessari færð (hold your horses young lady).