Á 27 ára afmælinu öðlaðist ég þroska til að umgangast skepnur hafsins, harhar. Afmælisgjöfin frá Baldri var að þessu sinni sjóferð út á Arabíuhaf að skoða höfrunga en Palolem strönd er einmitt þekkt fyrir að státa af mörgum slíkum.
Við sigldum út á eintrjáningi með hliðarskíði og sáum ansi marga höfrunga. Það er þó ómögulegt að segja hve margir þeir voru því kannski var alltaf um sama parið að ræða að dilla sporðinum. Við urðum að elta þá út um allan hafflötin svo í hvert sinn sem einhver sá glitta í gráan ugga, sporð eða bak þeyttust allir litlu eintrjáningarnir þangað með spennta ferðamenn um borð.
Afmæliskvöldverðurinn var síðan á tælenska vísu og er óhætt að segja að það hafi verið í fyrsta sinn. Afmælisveigar samanstóðu m.a. af mildu thai karrýi og avocado shake. Við sem héldum að þetta yrði í fyrsta sinn sem við héldum upp á afmælið mitt tvö ein urðum að sætta okkur við loðna boðflennu að þessu sinni. Hundspott frá veitingastaðnum hringaði sig nefnilega undir borðið okkar og haggaðist ekki sama hvað. Ég vil ekki vera dómhörð en að mæta óboðinn í afmælisboðið mitt sem ferfætlingur er frekar sérkennilegt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli