föstudagur, 5. október 2001

Í morgun fór ég niðrá féló og skrifaði undir samning varðandi liðveisluna. Ég er bundin út árið en síðan sé ég til hvort ég haldi áfram næsta ár.

Ég er aftur farin að lesa Isabel Allende á fullu. Ég tók bækurnar á mánudaginn og er bara búin með Ást og skugga, síðan byrjaði ég á Paula en varð að hætta fljótlega því í vikunni hef ég verið upptekin við að koma þessari síðu á netið, með slæmum árangri. Núna er ég aftur komin á fullt skirð og þarf að setja mér takmörk, bara 50 blaðsíður á dag.

Við erum búin að ákveða að opna heimasíðuna almenningi þann 10 10.01 á slaginu10:10 eða klukkan tíu mínútu yfir 10. Þetta er gert í anda nýju kringlunnar sem opnar þann 10.10.01 kl. 10:10. Okkur finnst það hálf hjákátlegt að rýna í einhverja dagsetningu en til að losna við þessa fyrirfram gerðu fordóma ákváðum við að taka þátt, þetta verður því einskonar þátttökurrannsókn eins og mannfræðingar gera á vettvangi, nema hvað við munum rannsaka okkur sjálf og okkar viðbrögð, mun okkur finnast þetta hallærislegt eða þrælskemmtilegt? Spennan eykst.

Annars vorum við að koma úr hinni árlegu Silungarveislu sem pabbi og vinir hans halda. Þetta er eina skiptið á árinu sem þessar karlre... elda matinn en ekki konurnar þeirra og þá er sko tilefni til að fagna. Þeir fara saman nokkrir vinir, pabbi, Stjáni, Ómar, Fúsi, Yngvi og stundum fleiri, árlega að Hítavatni og veiða þar silung í veisluna. Síðan er hann borinn fram smjörsteiktur í svakalega góðri sósu sem er alveg ógeðslega óholl.

Kristján "Vítamín" var skrautlegur eins að vanda og Ásdís litla dóttir hans er alltaf söm við sig, hún er alveg frábær stelpa, svo skýr og greind (enda nafna mín). Andri brósi var reyndar ekki á svæðinu sem gerði þetta óneitanlega leiðinlegra, okkur skildist svo á honum pabba að hann hefði farið á MR-VÍ daginn. En í stuttu máli sagt var þetta ákaflega skemmtileg kvöldstund og sem betur fer var enginn að reykja enda pabbi búinn að banna það í húsinu, hipp hipp húrra.
P.s. ég las yfir kvóta minn í Paula í dag en sleppti í staðinn að lesa grein Marx um laun, verkaskiptingu, blætiseðli vörunnar etc. Ég verð að fara að taka mig á.

Engin ummæli: