mánudagur, 29. október 2001

Mikið er gaman af ungunum okkar, við gerum ekki annað en að dást að þeim. Við vöknuðum eldsnemma í morgun og þvinguðum Kaníku til að gefa þeim spena. Mikið voru þeir ákafir í að fá að drekka og meira að segja Rúdólfur var aktívur. Í gær var hann nefnilega mjög máttfarinn og ég varð að halda honum upp við spenan og þar hékk hann og saug af lítilli græðgi. Bjartur aftur á móti var algjör fjörkálfur og baðaði út öllum öngum, snéri sér á bakið og á haus og vildi helst alla spenana í einu. Í morgun var Rúdólfur allur annar, þegar við settum hann á spenann byrjaði hann strax að sjúga af miklum ofsa og baðaði út öllum öngum rétt eins og bróðir sinn.

Þetta prógram er strax farið að skila árangri, þeir eru mun snarplegri og þyngjast óðfluga. Við vigtuðum þá í fyrsta sinn í dag, settum þá ofan í skál og síðan ofan á eldhúsvogina. Bjartur var þá 93 g en Rúdólfur aðeins 54,5 g. Í kvöld vigtuðum við þá síðan aftur eftir að þeir höfðu fengið fylli sína af mjólk og þá var staðan þessi: Bjartur 98 g og Rúdólfur 63 g! Hann var 8,5 g þyngri en í morgun, það þýðir að hann hefur drukkið sig stútfullan. Það sást nú líka á þeim, magarnir voru útbelgdir og stinnir af mjólk :)

Við fórum síðan aftur að tína arfa áðan, þessi kanína étur eins og ég veit ekki hvað. Að því loknu skelltum við okkur á El Estilo Americano (hint til pabba hehe) og tróðum okkur út þar til magar okkar voru útbelgdir og stinnir af seddu :)

Engin ummæli: