miðvikudagur, 16. maí 2012

Kjúklingabaunir í kókosmjólk


Hér er skemmtileg uppskrift að kjúklingabaunarétti í karrýkókosmjólk. Það er svolítill suður indverskur tónn í þessum rétti sem kemur af kókosmjólkinni. Rétturinn minnir mjög á einn af kjúklingabaunaréttunum í bókinni hennar Sollu, Grænmetisréttir Haugkaupa, en mér finnst að mörgu leyti léttari að henda saman í þennan.

Ég átti ekki kasjúhnetur og þær fást ekki í búðinni á eyjunni og rétturinn kom mjög vel út án þeirra, svo ef maður vill sleppa við þau útgjöld er það vel hægt. Einnig var enginn grænn chilli í boði svo ég bætti einni grænni papríku við og bætti síðan örlitlu af cayenne pipar út í réttinn til að fá þetta sterka.

Hér er síðan smá tips varðandi engiferrótina: best er að afhýða hana með skeið.

Hér er uppskriftin:
2 msk kókosolía
1 laukur
4 hvítlauksrif, marin
 3 sm engiferrót, afhýdd og rifin niður
2 msk Tandoori curry paste (ég notaði reyndar Mild Curry paste)
1 blómkálshöfuð
4 gulrætur
1 grænn chilli (ég notaði græna papríku)
200g kasjúhnetur
200 gr kjúklingabaunir
1 dós kókosmjólk
1 dós niðursoðnir tómatar
1 tsk grænmetiskraftur
1 tsk hafsalt

Ef notast er við ósoðnar kjúklingabaunir verður að leggja þær í bleyti í 24 tíma og sjóða þær síðan í 80-90 mín. Muna að fleyta froðunni ofan af á meðan á suðunni stendur.

Byrjið á því að hita olíuna á pönnu. Laukurinn er saxaður smátt og mýktur í olíunni á pönnunni. Síðan er hvítlaukurinn marinn og bætt út á ásamt ferska chilli piparnum og engiferrótinni. Næst er Tandoori curry paste bætt út á. Látið malla á pönnunni í 5-7 mín. Þá er niðurskornum gulrótum og blómkáli bætt á pönnuna og steikt í 6-8 mín. Því næst eru það kasjúhnetur, kókosmjólk, tómatarnir og kjúklingabaunir, ásamt grænmetiskraftinum og saltinu, og allt látið malla í 30 mín eða þangað til grænmetið er mjúkt undir tönn.

Gott er að bera réttinn fram með hýðisgrjónum og góðu mangóchutney.

1 ummæli:

Augabragð sagði...

Mmmm girnilegt. Ætla að prófa þetta einhverntíman :)