þriðjudagur, 24. júlí 2007

Í óspurðum ferðafréttum, III

Asíureisan okkar hefur fram til þessa verið hreint út sagt stórkostleg. Allir skemmtilegu staðirnir, náttúrufegurðin, fólkið, maturinn, atvikin, samtölin, hlutirnir, reynslan... allt svo yndislegt að orð fá varla lýst. Ég held við náum að koma þessari jákvæðu reynslu á framfæri hér á dagbókinni og enginn ætti að hafa farið varhluta af því hve gaman er að ferðast um þessar slóðir.

Það væri hins vegar svolítil svik að ljóstra ekki upp um þær stundir sem maður verður þreyttur á þessu öllu, það myndi í raun ekki gefa eins raunsæja mynd af lífinu á flakkinu. Stundum koma til dæmis stundir sem við fáum heimþrá og viljum ekkert frekar en komast í Jerusalem grænmetisverslunina á horninu, heilsa upp á arabísku með salaam aleikum og velja sér því næst ferskan blaðsalathaus og lífrænar gulrætur. Eða hanga í pottunum í Laugardalslaug á froststilltu kvöldi, kaupa sér snúð með karamellu í Bakaranum á hjólinu, hanga á bókasafninu og veiða sér bækur í kvöldsnarl, kraftganga út Kársnesið... Semsé heimþrá sem skýtur stundum upp kollinum.

Þá gengur það ekki alltaf alveg þrautalaust fyrir sig að ferðast hér um. Tökum samskipti sem dæmi. Í Halong borg áttum við til að mynda í stökustu vandræðum með að fá upplýsingar um hvenær vagninn til Ninh Binh færi því enginn á hótelinu skyldi orð af því sem við sögðum. Ég er að tala um svo lélega enskukunnáttu að þau skildu ekki einu sinni hugtakið check-out sem ég hefði haldið að væri með fyrstu orðum sem hóteleigendur flettu upp í víetnamsk-ensku orðabókinni sinni.

Veðrið getur dregið út manni mikinn kraft; æpandi sólin, kremjandi hitinn og kæfandi rakinn gera sitt besta til gera úr manni slitti. Það getur orðið þreytandi að stanslaust þurfa að prútta um allt og það sama má segja um óþreytandi sölufólkið sem er alltaf að ota einhverju að manni með orðunum Look my shop, madame eða hvíslandi Smoke, grass, marijuana? Túk-túk bílstjórarnir sem eru alltaf að bjóða manni far geta pirrað mann og muggurnar fara í mínar fínustu, sérstaklega þær sem hafa gerst sekar um að bíta mig í andlitið, hálsinn og eyrun.

Svo fæ ég stundum hundleið á því að búa í bakpoka, sá leiði lætur helst á sér kræla þegar ég er að ná í flík sem er grafin neðst í pokanum og til þess að komast að henni þarf ég að ryðja öllum samanbrotnu flíkunum upp úr pokanum. Ekki að það skipti máli hvort þær séu samanbrotnar, þær krumpast allar í klessu og ég man ekki hvenær ég gekk síðast í sléttri flík! Í Indlandshluta ferðarinnar var ég þar að auki að verða vitlaus á fábrotnu fatavali mínu, hafði einungis tvo boli og tvennar buxur, en í Tælandi bættum við úr því og síðan aftur í Víetnam svo ég hef ekki undan neinu að kvarta þar.

Og þá yfir í fréttir um nýjustu tækni og vísindi: Skjárinn á Snabba, fartölvunni okkar, er að syngja sitt síðasta. Vírinn sem tengir tölvuna við skjáinn er að gefa sig og skjárinn því alltaf að detta inn og út. Í ljósi þessa er ég fegin að við keyptum ódýrustu fartölvuna. Baldur benti reyndar á að líklegast hefði þetta vandamál ekki komið upp hefðum við keypt aðeins dýrari fartölvu sem ekki væri úr plastskel en ég neita að hlusta á svoleiðis rök, ef ég gerði það færi ég að grenja.

Annars erum við loksins komin til Siem Reap, bæjarins í norðri sem hefur að geyma Angkor Wat í næsta nágrenni. Ég treysti mér að fara í rútuferðina í morgun en þar sem ég á enn erfitt með gang verðum við að sjá til hvort við skoðum Angkor Wat og öll hin hofin áttatíu að svo stöddu. Ég komst varla út á veitingastað í kvöld, svo það er í hæsta máta bjartsýni að ætla sér að klífa upp forna stíga þar sem maður þarf á öllum fjórum útlimum að halda á stundum.

Siem Reap virkar á mig sem frekar rykugur bær og vatnið lyktar af járni. Ég fékk samt einn besta smoothie sem sögur fara af á mexíkóskum veitingastað í kvöld, ískaldan mangó- og appelsínussmoothie.

Engin ummæli: