fimmtudagur, 19. júlí 2007

Tuol Sleng og Dauðavangur

Eins og Kambódía er fallegt land með glás af fallegu fólki er því miður ekki hægt að segja það sama um þann hrylling sem land og þjóð gengu í gegnum á síðari hluta síðustu aldar. Í dag kynntum við okkur söguna með því að heimsækja tvo sögufræga staði: Tuol Sleng fangelsið og Dauðavang (e. Killing Fields).

Tuol Sleng fangelsið er tiltölulega miðsvæðis í hinni fallegu höfuðborg Kambódíu, Phnom Penh. Fram til ársins 1975 gegndi byggingin hlutverki barnaskóla. Fangelsinu hefur lítið verið haldið við eða breytt frá því að ógnaröld Pols Pots og Rauðu Kmeranna lauk árið 1979 en er nú opið almenningi undir nafninu Þjóðarmorðssafnið.

Eitt af því fyrsta sem ég rak augun í á svæðinu voru skilti sem bönnuðu fólki að brosa og sprella. Varla var þó hægt að segja að þeirra hafi verið þörf þar sem flestir á svæðinu virkuðu frekar slegnir yfir þeim upplýsingum og myndum sem þarna eru til sýnis.

Við skoðuðum fangaklefa og yfirheyrsluherbergi og í sumum var ljósmynd af aðkomunni eins og hún var 1979, hræðileg. Í yfirheyrsluherbergjunum var yfirleitt rúm fyrir miðju með rimlum í stað dýnu. Við þetta rúm var fanginn hlekkjaður og svo pyntaður til að kjafta frá og nefna mögulega óvini ríkisstjórnarinnar. Þetta endaði nánast undantekningalaust með dauða, af þeim 10.499 (u.þ.b. 2.000 börn ekki talin með) sem fóru í fangelsið lifðu aðeins sjö af.

Óvinir ríkisstjórnarinnar voru allir þeir sem hlotið höfðu menntun að einhverju ráði, notuðu gleraugu eða voru með mjúkar hendur. Pol Pot vissi sem var að að auðveldara væri að halda niðri ólæsu og ómenntuðu fólki þar sem það væri ólíklegra til að skipuleggja uppreisn af nokkru tagi, hvað þá að láta alþjóðasamfélagið vita hvað gengi á. Klassískar þjóðernishreinsanir í anda Stalíns.

Á safninu voru til sýnis ljósmyndir af vistfólki, en í þeim efnum eru heimatökin hæg þar sem Rauðu Kmerarnir tóku passamyndir af hverri og einni manneskju sem fangelsuð var í Tuol Sleng. Einnig héldu þeir nákvæmt bókhald yfir fólkið með æviágripi sem hefur gert rannsóknir á þjóðarmorðinu auðveldari en ella. Myndirnar sem sýndar voru eru auðvitað aðeins brotabrot af öllum fjöldanum en gefa engu að síður nokkra tilfinningu fyrir því hve gríðarmikill fjöldi fór þarna í gegn.

Af þessu áhrifaríka safni héldum við rakleiðis á Dauðavang, þar sem meirihluti fanga Tuol Sleng voru drepnir, en þar fundust fjöldagrafir árið 1980. 8.985 lík voru grafin upp úr 86 gröfum en yfir 10.000 liggja enn þar sem fjármagn til rannsóknanna þraut. Þess ber að geta að þetta er aðeins einn fjöldagrafaklasinn af mörgum og fræðimenn telja að Rauðu Kmerarnir hafi drepið á bilinu tvær til þrjár milljónir manneskja.

Við gengum um svæðið ásamt hollensku pari og leiðsögumanni sem fræddi okkur um hvern stokk og stein. Ég var feginn að hafa fengið leiðsögumann því annars hefði maður ekki áttað mikið á því hvað væri hvað. Til að mynda eru nokkrir legsteinar á svæðinu en þeir tilheyra öðrum tíma því fyrir tíma fjöldagrafanna var þarna kínverskur kirkjugarður.

Einkennilegt að á þessum fallega stað hafi fólki verið stillt upp fyrir framan holur í jörðina, með bundið fyrir augun og slegið í hnakkann og látið falla í hrúgu af líkum sem þegar var komin í holuna. Markmiðið var að drepa allt liðið án þess að sóa byssukúlum og stundum nenntu þeir ekki einu sinni að mölva hauskúpurnar svo þeir bundu bara plastpoka yfir hausinn á fólki eða skáru það á háls með oddhvössum greinum pálma sem vaxa á svæðinu.

Eitt af því sem gerði gönguna magnaðri en ég hafði búist við var rigning gærdagsins. Það sem gerist í mikilli rigningu er að jarðvegur skolast burtu og því sáum við bæði bein og föt fórnarlambanna hálf ofan í jörðinni og hálf upp úr. Þetta var úti um allt, kjúkur og leggir að gjægast upp og tennur hér og þar á gangstígum og víðar. Í kærkominni andstöðu við þennan óhugnað er grænn gróður, heiður himinn, söngur, skrækir og hlátur í skólabörnum að leika sér.

Eftir gönguna skoðuðum við stúpu sem stendur á miðjum Dauðavangi en í henni eru u.þ.b. 8.000 hauskúpur af svæðinu. Stúpan er eins og himinhá útstilling í búðarglugga á vöru sem engan á að langa í þ.e.a.s. hún er reist til minningar um þá sem létu lífið í þjóðarmorðunum en einnig til að minna gesti á hvers lags veröld við viljum ekki búa í.

Það eiga flestir í erfiðleikum með að ákveða hvað gera skuli meðan á þessari jarðvist stendur og þar sem óendanlega margt er í boði getur verið skemmtilegt að nota útilokunaraðferðina. Ég veit ekkert hvað ég ætla að gera í þessu lífi en hér eru nokkur atriði af útilokunarlistanum:

Læra rafmagnsverkfræði
Vinna í álveri
Fremja þjóðarmorð


Púhe! Eftir þetta allt saman var sannarlega kominn tími til að slá á léttari strengi og gerðum við það með því að skoða Sjálfstæðisvörðuna (e. Independence Monument) og smakka á þjóðarrétti Kambódíu, amok. Borðhaldið heimsótti svo falleg kisulóra sem kunni vel að meta kókoshnetukarríblönduna.

Engin ummæli: