Við kvöddum Kambódíu í dag og héldum til Tælands. Frá Siem Reap að Bangkok eru ekki nema u.þ.b. 330 km en engu að síður tekur ferðin þarna á milli allan daginn og meira ef eitthvað er. Vegurinn Kambódíumeginn er alræmdur fyrir holur og almenn óþægindi og Gróa á Leiti segir að ákveðið flugfélag múti ákveðnum stjórnmálaflokkum til að tefja allar vegabætur á þessum slóðum.
Til að gera ferðina þarna á milli eins þægilega og hægt er tókum við leigubíl að landamærunum. Leigubíll kemst mun hraðar yfir slæma veginn og auk þess leggur hann af stað þegar maður vill að hann leggi af stað. Við vorum komin upp í bílinn og lögð af stað til Tælands klukkan hálf sex í morgun og vorum komin að landamærunum á slaginu níu. Með rútunni hefðum við ekki verið komin að landamærunum fyrr en síðdegis.
Þar sem við fórum ekki með rútu yfir landamærin urðum við að þessu sinni að ganga yfir landamærin. Í mínu tilfelli var það reyndar frekar haltrað yfir landamærin. Allt gekk vel Tælandsmegin þó þeir hafi klórað sér lengi í kollinum yfir heiti landsins, Ísland eða Iceland, en það kom ekki að sök því við fengum inn.
Frá landamærunum tókum við túk-túk að næsta bæ, þaðan fara rútur til Bangkok. Á leiðinni í léttivagninum, sem er opinn á allar hliðar, fauk fína víetnam derhúfan af kollinum á Baldri. Ég bað bílstjórann vinsamlegast að stöðva, Baldur fór því næst úr sandölunum og hljóp síðan út eftir hraðbrautinni á táslunum. Sem betur fer var engin umferð og sá eini sem eitthvað sá að þessu var lítið hundskríli sem hélt að hlaupandi Baldur væri í einhverjum sniðugum hundaleik og tók því að elta okkar mann, geltandi út í eitt. Baldur sagðist eftir á hafa sýnt honum í tvo heimana, sem þýðir að hann snéri sér snöggt við, hleypti brúnum, sneri sér við og náði að hemja sig um að hlaupa ekki frá loðboltanum.
Þegar Baldur var kominn í öruggt skjól gátum við haldið för okkar áfram og náðum loks að smábænum, þaðan tókum við rútu til Bangkok. Við vorum ekkert að eyða óþarfa tíma í að bíða með að fá okkur tælenskan mat heldur kipptum með okkur frauðbakka af soðnum grjónum og góðum mat í rútuna.
Rútuferðin tók dágóðan tíma og í millitíðinni skipti veðrið skapi, svo mjög að þegar við renndum inn í borgina var verið að vökva hana af krafti. Okkur sakaði þó ekki því frá rútustöðinni tókum við leigubíl beint á Khao San. Við festumst margoft í umferðahnútum og vorum fyrir vikið óhemjulengi á leiðinni. Lengst sátum við í hálftíma föst en þá tók bílstjórinn rögg á sig, snéri bílnum og fór aðra leið og fimm mínútum síðar vorum við komin inn á hótel.
Það er sérkennilegt að koma aftur til borgar borganna og sjá að ýmislegt hefur breyst. Ný bókabúð er nú sprottin upp í hótelgötunni okkar, Soi Rambuttri, og alþjóðleg læknastofa komin þar sem áður var enn einn klæðskerinn. Götuveitingastaðurinn sem við dýrkuðum fyrir nokkrum vikum má nú muna fífil sinn fegurri, þau misstu kokkinn góða og þar með er allt bragð horfið af matnum. Svo er laydboy-inn fallegi sem stóð á horninu horfinn.
Flest hefur þó ekkert breyst: við fengum okkur hræring í plastpoka og grillspjót af götusölunum, ávaxtasölukonan okkar er enn í bransanum og klæðskerarnir frá Nepal mundu eftir okkur og vildu vita hvernig fríið í Víetnam hefði verið. Að því leyti er Bangkok jafnyndisleg og hún var áður.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli