mánudagur, 22. júlí 2002

Þvottavél óskast!

Undirbúningur búferlaflutninga okkar hjónakorna er í hámarki. Við erum nú þegar búin að pakka niður í 16 kassa en enn er slatti eftir af bókum og öðru drasli í hillum vorum. Og við sem héldum að við ættum svo lítið! Við vorum greinilega illilega veruleikafirrt. Hvað sem slíkri firringu líður höldum við ótrauð við að troða ofan í kassa og vonumst eftir hvern kassa að nú sé bara einn eftir til að fylla.

Íbúðin sem við flytjum í er ívið stærri en sú sem við erum í nú. Helsti kostur hennar er tvímælalaust sá að þar er sér svefnherbergi sem þýðir að í ókominni framtíð munum við ekki lengur þurfa að bjóða gestum okkar að setjast á rúmið okkar og nota náttborðið okkar sem bollahaldara.

Þar að auki er ágætisbaðherbergi með risa sturtu. Helsti ókosturinn er eldhúsið því það er hræðilega lítið og það sem meira er, þar er engan ofn að hafa. Þar að auki missum við afnot af þvottavél og því erum við nú á höttunum eftir góðri, ódýrri og nær óbilanlegri þvottavél.

Við erum ekki að leita að einhverri ofurvél heldur einhverri sem þvær þvottinn okkar og vindur hann tiltölulega vel. Ef þið vitið um einhvern sem er að skipta út þvottavélinni sinni megið þið endilega benda þeim hinum sama á að hafa samband við okkur Baldur.

Með fyrirfram þökk, hlýhug og djúpri virðingu.