fimmtudagur, 21. október 2010

Í bænum hans Búdda

Við erum núna í smábænum Bodhgaya og komum hingað í fyrradag með næturlest. Bærinn er frægur fyrir eitt og aðeins eitt: Undir bodhi tré nokkru fyrir um 2600 árum uppljómaðist prinsinn Siddarta Gautama og varð Búdda. Bærinn er því einn helgasti áfangastaður búddista enda flykkjast pílagrímar frá Japan, Kambódíu, Tælandi, Víetnam, Bútan, Búrma, Tíbet og Kína til bæjarins. Flestar þessara þjóða eru auk þess með hof og klaustur í bænum og í klaustrunum er hægt að fá gistingu kæri menn sig um það. Í tengslum við allt þetta er síðan fjöldinn allur af námskeiðum í boði í hugleiðslu, vipassana (þagnarbúðir) og búddisma, jafnvel hægt að læra tíbetsku.

Bodhi tréð stendur í dag við fallegt hof sem var reist til heiðurs Búdda fyrir um 1400 árum. Mahabodhi hofið er á heimsminjaskrá SÞ enda um merkilegar minjar að ræða. Reyndar er ekki um upprunalega bodhi tréð að ræða því afbrýðisöm eiginkona konungsins Ashoka hjó það niður þegar henni fannst eiginmaðurinn hafa sýnt búddisma og trénu sjálfu of mikinn áhuga. Hinsvegar hafði einhver verið nógu hagsýnn til að taka afleggjara af trénu og plantað honum í Sri Lanka, svo tréð við Mahabodhi hofið er í raun afleggjari af þeim afleggjara.

Þegar við fórum að heimsækja hofið og tréð var þar allt krökkt af ferðamönnum. Sérstaklega vakti áhuga okkur hópur eldri borgara sem allir báru rauða derhúfu með gulum stöfum. Við giskuðum á að þau væru frá Kambódíu en komumst síðar að því að þau væru frá Búrma. Allir voru ferðamennirnir ólmir í að ná í lauf eða fræ af þessu merka tré og stóðu í því að troða spítum gegnum rimlana til að reyna að krækja í merkilegheitin alveg þangað til vörðurinn kom að þeim. Það var mjög skemmtilegt að fylgjast með aðförunum, og enn fyndnara var að tréð lét eitt af fræjum sínum detta beint ofan á hausinn á Baldri. Þeir sem sáu þetta vildu meina að um blessun væri að ræða svo Baldur lagði fræið á þar til gert fat sem fórn til Búdda eða trésins.

Núna erum við á netkaffihúsi hér í þessum annars lágstemmda bæ. Hér er möl á gólfum og tjald yfir, semsé einhverskonar kaffihúsatjald. Svo eru mýs á vappi sem við höfum gaman að fylgjast með. Ansi smáar og sætar en aðeins of kvikar fyrir minn smekk. Ég held mig allavega frá bekkjunum sem þær hlaupa undir og vona að þær haldi sér frá matnum mínum :)

Næsti áfangastaður: Varanasi. Lonely Planet segir borgina ekki hlífa neinum svo við erum nett spennt að sjá hvernig við fílum Varanasi.

Engin ummæli: