mánudagur, 3. júní 2002

Ys og þys út af heilum helling

Ég sit núna upp á skrifstofu Dr. Unnar Dísar Skaptadóttur mannfræðings. Þetta er þriðji vinnudagurinn og ég fíla mig í tætlur. Fyrsta verkefnið mitt var að læra á forritið SoloWeb 2,5 til að gera heimasíðu fyrir Unni. Ég er nefnilega að vinna sem aðstoðarmaður hennar í sumar, aðstoða við rannsóknir og undirbúning námskeiða. Ég verð svona allt múligt man. Geggjað.

Ég ræð mér algjörlega sjálf, hvenær ég mæti, hversu mikið ég vinn og hvenær ég hætti. Ég held ég taki mér frí á föstudögum í sumar og vinni aðeins meira hina fjóra daga vikunnar. Það er gott plan. Held ég. Vonandi.

Helgin leið hratt og það var af nógu að taka. Föstudagurinn fór auðvitað allur í útskrift Andra. Veislan var alveg öldingis ágæt, okkur Baldri kom mest á óvart að þeir feðgar, anti-grænmetisætur, hefðu ákveðið að hafa tapas-rétti á boðstólum. Það eina sem var kjötkyns var lax á prjónum. Annars samanstóð veisluborðið af ristuðum snittum, ólívuolíubornum með allskyns gómsætu áleggi. Einnig aspas til að dífa í sósu. Lítil salöt í salatblöðum. Gærnmetisætum leið eins og blóma í eggi (Baldur varð að Baldursbrá).

Áfram með smjörið. Laugardagurinn byrjaði á keyrslu upp í Haukadal því til stóð að græða upp landið á Tortu. Það tók þennan galvaska hóp ekki langan tíma að sá og klára allt úr pokunum og því var næst á dagskrá að pikk-nikka.

Við Baldur vorum svo miklir lúðar að taka lítið sem ekkert nesti með okkur en það kom ekki að sök þar sem Stella amma var með þetta dýrindis kartöflusalat í farteskinu. Ég hef aldrei borðað svona góðan mat í pikk-nikk áður, nei hei. Við sátum við í dágóða stund en um hádegisbil var haldið heim á leið.

Þegar þangað var komið drifum við Baldur okkur yfir til pabba til að hjálpa til við flutningana. Þeir feðgar voru nefnilega að flytja yfir í Pókavoginn. Þegar okkur dreif að var allt á fullu, Erna og Alda ráku á eftir köllunum til að geta byrjað að þrífa og þeir greyin höfðu vart undan við að hlaupa með kassa og poka út í bíl. Annars var mestmegnið búið og því sluppum við með skrekkinn. Í staðinn tók ég bara myndir af elsku Þingásnum því þangað á ég víst ekki eftir að koma í bráð.