fimmtudagur, 11. ágúst 2005

Ikea túr 4

Það hljómar ótrúlega en á þeim 11 dögum, sem liðnir eru síðan við komum, höfum við nú náð því að fara fjórum sinnum í Ikea. Þetta hlýtur að vera einhvers konar met en hvað sem því líður erum við komin með nóg af Ikea í bili.

Í þetta sinn fórum við til að ljúka því sem eftir var og efst á blaði var rúmið sem okkur hafði ekki bara einu sinni heldur tvisvar mistekist að kaupa. Við höfðum fengið veður af því að rúmið okkar góða væri loksins til á lager svo við biðum ekki boðanna heldur fórum á staðinn og gátum loks keypt Sultan Storfors boxerdýnu með 25 ára ábyrgð.

Í leiðinni keyptum við einnig hægindastól, hornborð, auka eldhússtól og drekaplöntu (Dracaena Margin). Í þetta sinn ruglaðist ég ekki á stigagöngum þegar ég hljóp upp til að opna fyrir Baldri og sendibílsstjóranum sem roguðust með rúmdýnuna þessar fjórar hæðir.

Okkar fyrsta verk var að sjálfsögðu að pakka niður vindsænginni, þakka henni gott samstarf og setja upp nýja rúmið. Fram eftir kvöldi skemmtum við okkur síðan við að setja saman borð og stóla og koma þessum mublum haganlega fyrir í íbúðinni. Fundum einnig góðan stað fyrir drekaplöntuna og appelsínugula lampann sem við keyptum.

Þegar allt var komið á sinn stað litum við yfir stofuna og áttum ekki til orð yfir hversu notaleg og skemmtileg hún var orðin. Hápunktur dagsins var þó óneitanlega að fá að leggjast til hvílu í nýja 160 sentimetra rúminu okkar.

Engin ummæli: