miðvikudagur, 3. ágúst 2005

Ferðalag í Ikea

Mér finnst með réttu að tala um ferðalag þegar ég tala um verslunarferð okkar í Ikea í gær. Við vorum eldsnemma á fótum enda langur dagur frammundan og vissara að taka hann snemma. Þar sem ferð okkar í Ikea í Gentofte kvöldið áður hafði ekki skilað þeim árangri sem vænst var eftir (þ.e. rúmi) höfðum við sofið á hörðu trégólfinu þessa nóttina - það útskýrir nú að mestu leyti hve árrisul við vorum þennan annan dag okkar í stórborginni.

Við höfðum því einsett okkur að fara í Ikea í Tåstrup sem okkur virtist ekki vera svo ýkja lengra frá okkur en sú í Gentofte. Við komumst fljótlega að því að það var misskilningur. Við urðum til að mynda að taka lest út til Tåstrup og taka þaðan innanbæjarvagn að versluninni.

Þegar við vorum komin á áfangastað tók við strangur vinnudagur sem fólst í að prufa sófa og stóla, borð og lampa. Okkur til mikillar gleði var okkur tjáð að rúmið, sem við höfðum mætur á, væri til á lager og fengum við þar til gert plagg sem við áttum að vísa við kassann. Þegar við komum drekkhlaðin þangað var okkur þó tjáð að síðasta rúmið hafði verið selt svo við sáum fram á aðra nótt á beru gólfinu. En heimsókn í Jysk reddaði okkur þessari líka fínu vindsæng, við það léttist brún okkar töluvert.

Við fengum að fljóta með sendibílnum og þegar heim var komið tóku Baldur og bílstjórinn að henda úr bílnum á stéttina á meðan ég hljóp upp í íbúð til að opna fyrir þeim og ryðja því litla sem var fyrir gangveginum burt.

Ég hljóp upp stigana hvern á fætur öðrum en aldrei sá ég okkar hurð. Þar sem rökhugsun náði aldrei í skottið á mér (ég hljóp svo hratt) hélt ég bara áfram upp stigana þangað til ég var komin á efstu hæð. Þá var ég orðin virkilega ringluð og taldi mér trú um að ég hefði hlaupið framhjá okkar hurð. Svo ég hljóp niður og sá þá að ég kannaðist ekki við nein af nöfnum nágrannanna. Í eitt augnablik fannst mér ég vera stödd í annarri vídd þar sem möguleikinn á því að íbúðin okkar hefði færst til eða allt breyst meðan við vorum í Ikea var raunverulegur. Þegar ég var aftur komin á jarðhæð fékk ég þó útskýringu á þessari dularfullu upplifun, ég hafði hlaupið upp stigaganginn hjá Frederikssundsvej 60 B en ekki 60 A!

Fegnust var ég þó að Baldur og bílstjórinn voru ekki farnir að bera sófann upp vitlausan stigagang. Bílstjóranum hefur eflaust fundist þetta furðuleg uppákoma en hann lét ekki á því bera og þegar við afsökuðum okkur með því að segjast hafa flutt inn í gær virtist hann taka því sem gildu.

Þegar allur varningurinn hafði verið borinn upp í íbúð tóku við klukkustundir af húsgagnasamanskrúfi: sófi, sófaborð, skrifborð og skrifborðsstóll, kollur og náttborð. Undir lok dags voru híbýli okkar farin að taka á sig mynd íbúðar þar sem sófi var kominn upp og í hann gátum við hlammað okkur. Það var góður endir á degi.

Sófinn sem okkur leist svo vel á og keyptum.
Reyndum en gátum ekki keypt hálfa búðina eins og til stóð.
 
Hálfnað verk þá hafið er.
 
Ta-da: Sófinn tilbúinn til notkunar.

Engin ummæli: