Flugið hingað út gekk eins og í sögu. Eftir að hafa eytt seinasta deginum okkar á klakanum í að kveðja og pakka niður í töskur skriðum við seint upp í og eftir aðeins þriggja tíma svefn vorum við vakin upp af eldhressri Öldu frænku. Hún heimtaði að útbúa staðgóðan morgunverð handa okkur, þ.e. hrærð egg, en þar sem ég hafði enganveginn list á þvílíku svona ósofin hurfu þau ofan í Baldur.
Ferðin út á flugvöll tók rúman hálftíma svo við höfðum nógan tíma til að sitja og bíða í fríhöfninni. Okkur fannst við hæfi að taka eitthvað séríslenskt með okkur út, einhvers sem við myndum eflaust sakna, svo við fórum á stúfana og leituðum að bláum ópal. Því miður var hann hvergi fáanlegur í fríhöfninni og því urðum við að sætta okkur við næstbesta kostinn: rauðan ópal.
Með þetta nesti í farteskinu héldum við síðan út í flugvél og eftir tíðindalaust flug lentum við loks á Kaupmannahafnarflugvelli. Þá tók við stutt lestarferð yfir í Nørreport Station þar sem við stigum af lestinni og upp í vagn 5A sem vagnstjórinn kvað stoppa við Glasvej.
Þegar við næst stigum úr vagninum stóðum við beint fyrir framan Frederikssundsvej 60 C og vorum þar með aðeins örfáum metrum frá nýja heimilinu okkar. Við hliðina á innganginum að okkar stigagangi er búðin Sonofon og þangað urðum við að fara til að nálgast lyklana að íbúðinni en svo hafði leigusali okkar skipað fyrir.
Eftir smá misskilning og nokkrar taugatrekktar mínútur, þar sem við ímynduðum okkur ráfandi um götur Kaupmannahafnar heimilislaus og með tárrákir í andliti, var lykilinn okkar og þar með íbúðin. Við vorum búin undir hið versta, búin að brynja okkur fyrir því að íbúðin væri kuldaleg, óhrjáleg, sóðaleg, lek og óþétt.
Það kom okkur því þægilega á óvart hvað íbúðin var frábær. Hún er björt og skemmtileg, lítil og hugguleg, nútímaleg og gamaldags. Strokið hafði verið úr hverju horni, ísskápurinn íslaus og tandurhreinn. Sem sagt alveg til fyrirmyndar eða eins og við hefðum sjálf átt hönd í bagga ;)
Við hófumst strax handa við að taka upp úr töskum og henda inn í skápa og í þann mund er því verki var lokið kom vinur leigusalans yfir til að fara yfir íbúðina með okkur og sýna okkur sameignina. Hann var hinn besti leiðsögumaður og sýndi okkur þvottahúsið, hjólageymslurnar og aðsetur blessaðs vice værtsins.
Við fengum einnig ómetanleg tips frá heimamanninum. Hann sagði okkur t.d. að í húsinu okkar byggi almennilegt fólk og því væri okkur óhætt að hengja þvottinn okkar til þerris í sameiginlega þurrkherberginu, honum yrði örugglega ekkert stolið.
Að þessari kynningu lokinni var ekki seinna vænna en að drífa sig í Ikea enda íbúðin rúmlaus með öllu. Þegar í Ikea var komið var okkur hins vegar tjáð að rúmið, sem við vorum búin að ákveða að kaupa, væri uppselt en að þau væru enn til á lager í Ikea búðinni hinu meginn við borgina.
Þannig varð hið óhugsanlega allt í einu að veruleika, við vorum rúmlaus og urðum að gera það besta úr því sem við höfðum. Við höfðum föt og handklæði svo við útbjuggum okkur beð úr þeim og sváfum á þeim fyrstu nóttina okkar í Kaupmannahöfn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli