þriðjudagur, 30. ágúst 2005

Field's og froskar

Við kíktum í verslunarmiðstöðina Field's í dag. Hún líkist Smáralindinni að því leyti að gangarnir eru víðir og rúmt er um mann en þar endar samanburðurinn enda Field's mun stærri en Smáralindin. Ferðin var aðallega farin fyrir forvitnissakir.

Við fundum heilsuverslun sem því miður seldi mest lítið af þeim varningi sem við erum vön að kaupa í heilsuverslunum heima. Leitin að almennilegri heilsuverslun heldur því áfram. Við rákumst einnig á verslunina Olíur og edik sem sérhæfir sig einmitt í olíum og ediki. Þá er töluvert af tískuverslunum í kjarnanum og keypti ég mér pils og tösku í Vero Moda.

Úr Field's héldum við yfir til Stellu og Kristjáns og hjálpuðum þeim að bera upp tonnið. Okkur tókst líka að koma upp hillum í stofunni og við Stella röðuðum bókum í þær eftir kúnstarinnar reglum á meðan strákarnir komu upp skrifborði í gesta/barnaherberginu. Við hjóluðum síðan heim seint um kvöld í rökrinu og voru fegin luktunum sem við höfðum fyrr um daginn fest kaup á í Bilka.

Ps. Við gleymdum myndavélinni okkar heima þennan dag svo við birtum engar myndir en bendum á myndasíðu froskanna.

Engin ummæli: