Þá erum við búin að vera tvo heila daga í höfuðborg Malasíu, Kuala Lumpur. Ég get ekki sagt annað en að borgin hafi komið mér skemmtilega á óvart. Hér keyra strætóar um með skilti sem á stendur K.LUMPUR, sem ég hef óendanlega gaman af. Þá er borgin að mörgu leyti mjög nútímaleg með sína mörgu skýjakljúfa og notendavæna metróið. Á hinn bóginn eru leigubílar venjulega gamlir og úr sér gengnir og viðhorf til samkynhneigðra eru ansi úrelt (bannbann-skammskamm).
Borgin er skemmtilegur kokteill af fólki og menningarheimum: kínversk, íslömsk, indversk og malay áhrif í einni bendu. Í sömu svipan getur maður gengið framhjá konum með hvítar blæjur, konum í svörtum búrkum, konum í litríkum sarí eða stúlkum í magabol og mínipilsi.
Malasía er fyrsta múslimaríkið sem ég heimsæki en ég verð að viðurkenna að ég verð ekki mjög vör við íslam í daglegu lífi túristans. Bænaköllin daglegu hef ég til að mynda ekki orðið vör við en það er kannski af því við erum búin að eyða síðustu tveimur dögum í Kínahverfinu og inn í verslunarmiðstöð.
Í gær var fyrsti dagurinn okkar í KL. Við byrjuðum á því að ganga um Kínahverfið enda hótelið okkar staðsett á helstu markaðsgötu Kínahverfisins, JI Petaling. Þar sáum við falsaða merkjavöru í tugatali: töskur, armbandsúr, skótau, sólgleraugu, boli og buxur. Prada, Nike, Adidas, Dolce & Gabbana... ef það er vinsælt þá fæst það hér.
Frá markaðnum röltum yfir í hindúa hofið Sri Mahamariamman þar sem við vorum svo ljónheppin að lenda á einhverskonar athöfn þar sem spilað var á tabla og fólk safnaðist kringum altar og bar tika á ennið á sér. Við gátum líka kynnt pabba fyrir uppáhaldinu okkar, honum Ganesh, og foreldrum hans Shiva og Parvati.
Frá hofinu röltum við sem leið lá að stóru húsi sem kallast Aðalmarkaðurinn og hýsir m.a. listamenn og smiðjur þeirra. Þar fylgdumst við með málurum að störfum við trönur sínar og ég fékk mér rosalega girnilega, nýbakaða og ilmandi mexíkóska risabollu sem svo reyndist vera með rúsínum (þvílík vonbrigði).
Á rölti okkar um borgina gengum við framhjá illalyktandi, þurrkuðum fiski og hindí veggjakroti. Við hjuggum líka eftir nokkrum malasískum orðum sem báru óneitanlega með sér enskan blæ. Restoran, farmasi og teksi eru hins vegar að því er virðist rótgróin, malasísk orð. Þá veittum við því líka athygli að malasíski fáninn er nánast út um allt í höfuðborginni og furðuðum við okkur aðeins á því.
Frá Aðalmarkaðnum gegnum við að Sungai Klang ánni sem rennur þar rétt hjá. Frá árbakkanum sáum við glitta í Masjid Jamek, mosku sem byggð var 1907 og er víst annáluð fyrir fegurð sína. Við gengum vestur eftir ánni að Lebu Pasar Besar brú í átt að Merdeka torgi. Þar skoðuðum við gamlar en glæsilegar byggingar sem bera keim af íslömskum og evrópskum áhrifum. Á þessu merka torgi lýsti Malasía yfir sjálfstæði sínu árið 1957, en það þýðir að Malasíumenn halda upp á 50 ára sjálfstæði sitt í ár, nánar tiltekið þann 31. ágúst. Það útskýrir fánadýrðina, í tilefni af afmælinu er annar hver skýjakljúfur með flennistóran fánann til sýnis og annar hver ljósastaur skreyttur í stíl. Hinir ljósastaurarnir eru með rauð, upplýst blóm.
Þar sem við höfðum náð að skoða bróðurpart af því sem okkur langaði að sjá í gær tókum við daginn í dag frá fyrir tívolí! Við fórum í stærsta innanhússskemmtigarð Malasíu, Cosmo's World Theme Park, sem er hvorki meira né minna en inn í verslunarmiðstöð. Ég skemmti mér konungleg og held að ég hafi farið fleiri salíbunur en Baldur og pabbi til samans. Hvað getur tívolíljón gert annað en skemmt sér í tívolí?
Í stuttu máli sagt eyddum við öllum deginum inn í verslunarmiðstöðvum. Þegar tívolíið var að baki borðuðum við lebanskan mat (hummus, namm) í Suria KLCC verslunarmiðstöðinni og fórum í bíó að sjá Evan Almighty eftir það. Það var því ekki fyrr en seint og um síðir sem við komum út í ferska loftið og hvað blasti þá við okkur annað en Petronas turnarnir í allri sinni upplýstu kvölddýrð. Það kalla ég að kveðja góðan dag með stæl.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli