föstudagur, 2. ágúst 2013

Skúffukaka

Skúffukaka
 
Þá er komið að föstudagsuppskriftinni!

Að þessu sinni er það hin klassíska skúffukaka með kókos. Það má segja að skúffukakan hafi verið mitt fyrsta bakaraverk. Ég held ég hafi verið 14 eða 15 ára þegar ég bakaði mína fyrstu skúffuköku. Hún heppnaðist vel, hún var étin upp til agna og þá fattaði ég þetta: Það er gaman að baka.

Síðan þá hef ég bakað margar kökur og tertur, en mér finnst alltaf jafnþægilegt að baka skúffuköku. Það verður varla mikið einfaldari bakstur og hún kemur alltaf ilmandi og heit út úr ofninum. Svo er það bara góður glassúr ofaná og það er kominn drekkutími.

Þessa uppskrift fann ég á síðunni Ljúfmeti og lekkerheit. Henni svipar mjög til uppskriftarinnar sem ég studdist við sem unglingur en glassúrinn hér er miklu betri. Ég hef reyndar tvíkað uppskriftina aðeins til og set fjórfalt magn af kakói í kökuna sjálfa því mér fannst hún bæði of ljós og bragðast of mikið af  hveiti þegar ég notaði bara 1 msk eins og upprunaleg (hálf) uppskrift kveður á um.

NB! Þar sem við Baldur erum bara tvö í heimili helminga ég mjög oft uppskriftir og það hef ég gert í þessu tilfelli. Hún passar í lítið eldfast mót og kjörið að skella í litla skúffuköku ef hún er bara hugsuð fyrir 2-4. En til að fylla út í alvöru ofnskúffu þá þarf að tvöfalda þessa uppskrift.

HVAÐ
Í kökuna:
1 egg
1,5 dl sykur
2 dl hveiti
3-4 msk kakó
1 tsk lyftiduft
1 tsk vanilludropar
0,75 dl mjólk
75 g smjör, bráðið

Í glassúrinn:
125 g flórsykur
40 g smjör, brætt
1 msk uppáhellt kaffi, kælt
1 msk kakó
1 tsk vanilludropar

Ofaná: Kókosmjöl

HVERNIG
1. Hitið ofninn upp í 175°C.
2. Bræðið smjörið og leyfið því að kólna.
3. Smyrjið form eða ofnskúffu.
4. Hrærið saman egg og sykur þar til hræran er orðin létt og ljós.
5. Sigtið saman hveiti, kakó og lyftiduft út í eggja-sykur hræruna og hrærið saman.
6. Bætið út í smjörinu, mjólkinni og vanilludropunum og hrærið þangað til allt hefur gengið saman.
7. Hellið deiginu í smurða formið.
8. Bakið fyrir miðjum ofni í 20-25 mín. Ef kantarnir eru farnir að losna frá forminu er kakan vel bökuð.
9. Leyfið kökuna að kólna í 45-60 mín.
10. Glassúrinn: Setjið flórsykur og kakó saman í skál og blandið vel.
11. Bætið við bræddu smjöri og vanilludropum og hrærið vel.
12. Bætið við kaffinu og blandið vel.
13. Ef glassúrinn er enn of þéttur í sér og þið viljið ekki þynna hann út með kaffi svo kaffibragðið verði ekki of ríkjandi, má alltaf taka smá mjólkurdreytil og þynna glassúrinn út þannig. Mikilvægast er að hella mjög litlu í einu, hræra vel og taka stöðuna.
14. Smyrjið glassúrnum í þykku lagi ofan á skúffukökuna. Dreifið svo kókosmjöli ofaná.

Krakkar, drekkutími!

Skúffukaka
 
Skúffukaka

Engin ummæli: