Rútuferðin til Kuala Lumpur gekk vitanlega eins og í sögu, bara ekki þeirri sem ég ætlaði upphaflega að segja hér. Þannig er það nú oft, skemmtilegar sögur eru þær sem maður sér ekki fyrir. Fyrst ber að geta þess að þessa dagana eru frí hjá Malasíubúum og því uppbókað í allar lestir og flestar rútur. Fyrir vikið er skotið inn aukaferðum og keyptum við einmitt miða í eina slíka.
Við mættum samviskusamlega á ferðaskrifstofuna klukkan hálfþrjú, hálftíma fyrir brottför eins og mælst var til. Stuttu eftir að þangað kom vísaði starfsmaður skrifstofunnar okkur á biðstöð þar sem við fengum okkur sæti og hófum bið, til þess eru jú biðstöðvar. Bíða, bíða, bíða.
Betra er seint en aldrei, rútan var nú ekki nema einum og hálfum tíma á eftir áætlun og þar sem heimamenn virtust vanir svonalöguðu og spurðu einskis sýndum við af okkur afburðaþolinmæðistakta en vorum vitanlega ánægð að komast inn í rútuna. Framanaf gekk rútuferðin rösklega en hljóðin í gripnum bentu þó til þess að gúmmípúðar og þess háttar pjatt sé lítils metið því alltaf þegar hreyfing kom á skrokk ferlíkisins mátti glögglega heyra að víða small járn í járn.
Eitt augnablik fékk ég á tilfinninguna að Kambódíuævintýrið væri í þann mund að endurtaka sig en hugsaði svo: Hvaða, hvaða, enga svartsýni. Hugsunum fylgir þó greinilega ábyrgð því skömmu síðar var rútan komin út í kant, einhvers konar kúplingsvesen. Hvað sem bílstjórinn reyndi, ekki vildi hún í gírinn blessuð rútan. Enn tók við bið og enginn spurði neins. Ég hugsaði: Þeir senda okkur þá bara aðra rútu, svona eins og í Kambódíu.
Ekki bólaði á rútunni og leið einn klukkutími og svo annar. Einhvern tímann á þessum tíma lagði Pajero jeppi fyrir framan rútuna og út kom grútskítugur smurpungur sem greinilega hafði legið undir rútum á vegum úti í allan dag, viðgerðarmaður fyrirtækisins. Hann lagði sig allan í málið og skömmu síðar rumdi rútan aftur út á þjóðveginn, kúplingsmálið úr sögunni í bili.
Ekki hafði flykkið urrað lengi þegar komið var að matarstoppi í litlu tjaldi við þjóðveginn. Ekki leist mér mjög á það sem í boði var og endaði á því að prófa einhvers konar fiskifýlukarrígrjón. Lítið þótti mér til þeirra koma og held ég að bílstjórinn, sem leit út eins og Forest Whitaker, hafi séð á mér svengdina því hann fór að kynna fyrir mér einhvers konar gufusoðnar brauðbollur með framandi ávaxtasultufyllingu. Reyndust bollurnar vera hinar bestu og áður en ég vissi af var maðurinn góði búinn að splæsa á okkur fjórum stykkjum. Þetta eru víst einhver sérmalasísk fyrirbæri og verð ég að segja að bæði bragðið af þeim og gestrisni bílstjórans gera mig að miklum Malasíuvin.
Það verður að segjast eins og er að þrátt fyrir heilmiklar tafir leið þessi rútuferð ótrúlega hratt og var hin skemmtilegasta frá upphafi til enda. Auðvitað verð ég að játa að brauðbollurnar höfðu sitt að segja en einnig gaf ferðin okkur Íslendingunum innsýn í hver ótrúlega þolinmóðir Malasíubúar eru. Það var eins og fólk vissi að sama hvað það hefði um seinkanir eða bilanir að segja þá myndu þær skoðanir ekki breyta neinu. Við tókum þetta fólk til fyrirmyndar og fyrir vikið varð úr þessu stórskemmtileg minning um bráðflippaða rútuferð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli