mánudagur, 20. ágúst 2007

Georgsbær

Ferðalagið frá Tælandi til Malasíu gekk mun hraðar en ég bjóst við og held ég að einhverjar nýjar ljóshraðakenningar séu aðsigi. Málið er að þegar við lögðum af stað frá Tælandi var árið 2550 en hér í Malasíu er árið 2007. Ferðalagið er því orðið andlegt og líkamlegt tímaflakk. Tímamunurinn hefur þó meira með menningarheima að gera þar sem Tælendingar miða upphaf síns tímatals við fæðingu Búdda.

Georgsbær (nefndur eftir Georgi 3.) er stærsta byggðin á eyju að nafni Penang. Eyjan liggur vestanmegin við Malasíu norðanverða og svo nærri að maður getur valið milli stuttrar ferjusiglingar og langrar brúar; við notuðum ferjuna. Þó svo að um stærstu byggð Penang sé að ræða er hún afskaplega lítil og renndum við yfir helstu atriði á 150 mínútum með dyggri aðstoð tamílsks leigubílstjóra.

Fyrsta stopp var ótrúlega falleg moska en til að skoða hana og samtímis gæta fyllstu siðprýði urðum við að dulbúa Ásdísi eftir reglum hússins. Í boði var dökkblár kufl og honum fylgdi neongul slæða. Þessari múnderingu klæddist Ásdís meðan moskan góða var rannsökuð og ljósmynduð í bak og fyrir.

Eftir moskuna renndum við inn í Kínahverfi og skoðuðum klanhús og einhvers konar fórnamusteri. Klanhúsið er í raun samansafn margra húsa sem tilheyrðu öll sömu fjölskyldunni. Þarna höfðu fjölskyldur allt til alls, meira að segja leiksvið þar sem óperur og leikrit voru sýnd til að skemmta bæði framliðnum og lifandi (mikil forfeðratrú).

Þegar við renndum svo í hlað hjá fórnamusterinu fór ekki á milli mála að fórnirnar samanstóðu af reykelsum og pappírspeningum sem allt saman var brennt bæði innan- og utanhúss í kílóavís. Inni var allt fullt af reyk og voru svo mörg reykelsi lögð á altörin að keðjureykjandi starfsmaður hafði vart undan að kippa þeim af altörunum og flytja þau út á stétt í brennsluofnana.

Skoðunarferðina enduðum við svo með því að skoða Cornwallis virki sem er í dag huggulegur garður, með svolítilli fræðslu um nýlendutímann, skreyttur alls kyns fuglum og starfsfólki sem dubbað er eftir tísku 18. og 19 aldar. Það má því segja að í þessum litla bæ mætist ólíkir heimar frá ólíkum tímum á afskaplega stuttum tíma.

Næst á dagskrá er rútuferð til Kuala Lumpur og hlökkum við öll mikið til að heimsækja borg með jafnfyndnu nafni.

Engin ummæli: