miðvikudagur, 23. maí 2012

Texmex súpa


Þegar ég var að vinna á Ferðaskrifstofu Farfugla fórum við stelpurnar stundum í hádeginu á föstudögum á kaffiteríu Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsinu. Þar var nefnilega oft í boði texmex súpa með öllu tilheyrandi og hún var ansi góð.

Síðasta sumar, eftir tæplega ársdvöl í Indlandi og þar með tæpt ár af indversku fæði, fórum við skötuhjú í endurhæfingu í franskri sveit. Sú endurhæfing tók strax á sig mynd næringarbúða þar sem við vorum mögur eftir magaveikindi sem hrjáðu okkur á lokasprett Indlandsdvalar. Og hvar í heiminum er best að vera og mega borða eins og mann lystir í því skyni að þyngjast og styrkjast? Já, algjörlega rétt, auðvitað í Frakklandi!

Ég var svo áfjáð í að elda eitthvað annað en það sem við höfðum verið að borða í Indlandi að á fyrstu dögunum okkar í Bretaníusveit skellti ég í Texmex súpu. Vissulega eru baunir, chilli og cummin í uppskriftinni, en að öðru leyti minnir hún ekkert á það sem fæst í Indlandinu góða.

Hugsanlega kemur það til af því að súpuna eldaði ég á fallegum sólardegi að ég tengi hana við sumar. Og kannski að litadýrðin hafi eitthvað með það að gera líka því súpunni fylgir marglitað meðlæti sem lífgar upp á tilveruna og fær sál og líkama til að syngja í kór. Allavega, þá finnst mér hún tákngervingur ljúfu árstíðarinnar og ég bíð spennt eftir því að fá upp í hendurnar tilefni og veður sem hæfir súpunni. Kannski að Hvítasunnan sé það? Veðrið er allavega búið að vera nógu gott þessa vikuna, heiðskír bongoblíða upp á hvern einasta dag

Hér kemur svo uppskriftin:
2 hvítlauksrif
2 rauðlaukar
2 tsk cummin
½ tsk cayenne pipar
¼ tsk chilli duft
1 msk papríkuduft
2 tsk púðursykur
1 msk tómat purée
½ tsk oregano,
2x 400g dósir nýrnabaunir
1x 400g dós niðursoðnir tómatar
900 ml vatn

Meðlæti: Rauðlaukur, papríka, avokadó, ferskur kóríander, tortilla flögur, sýrður rjómi, rifinn ostur

Steikið laukinn í olíu í örfáar mínútur eða þar til hann hefur náð að mýkjast. Hrærið cumini, cayenne, chilli og papríku saman við laukinn og látið krauma í u.þ.b. mínútu. Bætið við pýðursykri, purée og oreganó og hrærið vel saman. Henda nýrnabaunum saman við vatnið í stórum potti ásamt niðursoðnum tómötum. Setjið lok á pottinn og látið sjóða við vægan hita í 20 mínútur. Súpan látin kólna aðeins en síðan maukuð með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Borin fram með rifnum osti, blöndu af grænmeti, sýrðum rjóma og tortillum.

Til að bera enn frekari gleði fram með súpunni mæli ég með litríkum dúk til að dekka borð, skemmtilegum súpuskálum og fallegum drykk í könnu. Og blóm í vasa og jafnvel kerti í ljóskerjum myndi ekki skemma fyrir. Panta svo fallega birtu og still veður og þetta er unnið spil. 

2 ummæli:

Augabragð sagði...

Þessi staður var frábær og texmex súpan yndisleg. Ég hef lengi leitað að þessari uppskrift á netinu og prófa þær margar - en aldrei fundið þá réttu. Svo eldaði ég þína uppskrift í kvöldmatinn og NAMM! Súpan er stórkostleg og bara alveg eins og á staðnum góða (sem er búið að loka og einhver nýr súpustaður er kominn í staðinn).

ásdís maría sagði...

Frábært að heyra að þú hafir prófað þessa og líkað vel :) Þetta var frábær staður, góðar minningar :)