Það er með hálfgerðum trega og söknuði að ég set út seinustu myndirnar okkar frá Indlandi. Leh í Ladakh og Nýja Delhi voru síðustu áfangastaðirnir í tæpri ársferð okkar um Indland og nú þegar myndirnar eru komnar í albúm á flickr er þeim kafla endanlega lokið. Auðvitað lauk honum í júlí á síðasta ári þegar við flugum frá Delhi til London og þaðan yfir Ermasundið til Bretaníu, en þegar maður klárar að yfirfara myndirnar kemur yfir mann mjög opinber tilfinning, eins og maður hafi fengið tilkynningu í pósti frá Ríkisstofnun ferðalanga um að hérmeð sé þessu Indlandsbakpokaferðalagi 2010-2011 endanlega lokið.
(Samkvæmt þessari lógík er hins vegar bakpokaferðalaginu 2006-2007 um Suðaustur Asíu ekki lokið því ég á enn eftir að setja inn myndir frá Ankor Wat í Kambódíu!)
Ferðin til Ladakh var vægast sagt ævintýraleg. Við keyptum okkur far með lítilli 13 manna rútu og vinalegum nepölskum rútubílstjóra. Við vorum tíu saman í þessu ævintýri: bílstjórinn, við Baldur, par frá Nýja-Sjálandi og breskur vinur þeirra, par frá Búlgaríu, Lawrence frá London og Ryan, ungur vínbóndi frá Kaliforníu.
Undir venjulegum kringumstæðum tekur þessi ferð tvo sólarhringa með einni gistinótt í fjöllunum. Á fyrsta deginum lentum við hins vegar strax í miklum hremmingum: aurskriða hafði fallið á veginn á leiðinni yfir fyrsta fjallskarðið og við sátum föst í 12 tíma á sama staðnum í langri röð af rútum, vörubílum og smábílum. Ég hef aldrei áður verið eins nálægt því að efast um hæfileika mína til að halda sönsum eins og á þessum 12 tímum. Fyrir hverja hundrað metra sem við mjökuðumst áfram urðum við að bakka tvö hundruð. Indverski herinn var nefnilega staddur þarna í tilefni þess að verið var að flytja herstöðvar milli staða og hertrukkarnir þeirra því fastir rétt eins og aðrir, og hermennirnir höfðu ekkert þarfara að gera en að skipta sér af rútum og ferðalöngum.
Undir venjulegum kringumstæðum tekur þessi ferð tvo sólarhringa með einni gistinótt í fjöllunum. Á fyrsta deginum lentum við hins vegar strax í miklum hremmingum: aurskriða hafði fallið á veginn á leiðinni yfir fyrsta fjallskarðið og við sátum föst í 12 tíma á sama staðnum í langri röð af rútum, vörubílum og smábílum. Ég hef aldrei áður verið eins nálægt því að efast um hæfileika mína til að halda sönsum eins og á þessum 12 tímum. Fyrir hverja hundrað metra sem við mjökuðumst áfram urðum við að bakka tvö hundruð. Indverski herinn var nefnilega staddur þarna í tilefni þess að verið var að flytja herstöðvar milli staða og hertrukkarnir þeirra því fastir rétt eins og aðrir, og hermennirnir höfðu ekkert þarfara að gera en að skipta sér af rútum og ferðalöngum.
Við sátum föst frá hádegi til miðnættis með enga salernisaðstöðu. Hins vegar vantaði ekki upp á matarföng því jafnóðum og stefndi í teppu og stopp höfðu sölumenn komið upp litlum kerrum á hjólum og hafið sölu á núðlusúpum, kexi og gosi. Þá var erfitt að festa blund inn í litlu rútunni því sölumenn sem vildu selja manni saffran voru sífellt að banka á rúðurnar og bjóða manni alveg ekta saffran á kostakjörum. Seinnipart dags tók að rigna og fyrr en varði var vegurinn sem rútan stóð á orðinn að einu forarsvaði. Undir miðnætti, þegar blaðran gat ekki haldið vatni lengur, varð ég að ösla drulluna í Teva sandölunum mínum með Baldur mér við hlið sem siðgæðisvörð. Til að kasta af sér vatni varð maður nefnilega að fara út í vegkant og hafa einhvern hjá sér með teppi til að mynda skjól fyrir bílljósum og ótrúlega forvitnum Indverjum sem virtust vera í stöðugum gönguferðum meðfram veginum.
Þessa fyrstu nótt af ferðinni sváfum við hálfa nóttina í rútunni og hálfa nóttina á ómerkilegu hóteli sem við rétt náðum að komast inn á um blánóttina með því að vekja upp starfsfólkið sem svaf á dínum í lobbíinu. Fyrir vikið vorum við öll frekar illa sofin þegar við lögðum aftur í hann snemma dags á öðrum degi, og sérstaklega bílstjórinn okkar sem hafði sofið í rútunni og náð þriggja tíma svefni. Algjör bilun!
Á öðrum degi miðaði okkur betur en þó vorum við stopp hér og þar á leiðinni vegna aurskriða sem verið var að ryðja burt. Landslagið var grátt, brúnt og hrjóstrugt með einsdæmum. Þessa aðra nótt sömdum við við bílstjórann um að stoppa í örlitlum bæ með kannski átta hirðingatjöldum til að ná einhverjum svefni. Við fengum gistingu í tjaldi einnar fjölskyldunnar, svolgruðum í okkur núðlusúpu og heitu tei og vorum komin í háttinn rétt upp úr átta og komin á fætur í dögun. Við vorum öll svo þreytt eftir erfiði síðustu daga að það heyrðist ekki múkk í okkur alla nóttina, jafnvel þó við Baldur svæfum saman í 90 cm rúmi og restin af hópnum svaf saman í einni kös á 3ja-4ra metra breiðu rúmi. Það var eins og þarna svæfu steinar í stað fólks og kyrrðin í auðninni var algjör.
Á þriðja deginum keyrðum við í gegnum magnaðasta landslagið á leiðinni til Ladakh. Við fórum framhjá hirðingjum sem voru að reka jakuxahjarðir sínar áfram í morgunsárið og fórum yfir næsthæsta fjallveg heims. Þar stöðvuðum við bílinn til að fara út og upplifa hæðina. Við pössuðum okkur þó á því að fara okkur hægt og ekki spretta út spori til að komast hjá því að fá háfjallaveiki. Þetta var mögnuð stund sem varð magnaðri þegar byrjaði að snjóa á okkur þennan júlímorgun. Landslagið eftir þennan áfanga var ekki síður dramatískt: þverskorin fjöll og klettar með fjólubláum blæ, grænar ár og gul engi. Við náðum síðan áfangastað okkar stuttu eftir hádegi á þessum þriðja degi ferðalagsins, sólahring á eftir áætlun, útkeyrð og skítug en einhverri ólýsanlegri reynslu ríkari.
Myndirnar úr för okkar til Ladakh og dvöl okkar þar auk mynda frá Lotushofinu í Nýju Delhi er að finna í Ladakh albúminu okkar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli