mánudagur, 16. janúar 2012

Jól og áramót á Lovund

Þá eru jólin og áramótin hér á Lovund komin og farin. Lífið er aftur að falla í sínar skorður, jólakortin eru komin niður af vegg og svo ætlum við að kveikja í restinni af skrautinu, þ.e. kertunum. Jafnvel þó eitthvað sé liðið á nýárið er ekki úr vegi að segja örlítið frá jólahaldinu hér á Lovund þar sem það var nú með aðeins óvenjulegu sniði. Vissulega ekki eins óvenjulegu og jólin þar áður í hita og mannmergð Indlands, en þó ekki það sem kalla mætti hefðbundin jól.

Í lok nóvember fórum við á jólahlaðborð í boði vinnunnar og innifalið í því boði var hótelgisting í bænum Mo i Rana. Við gripum tækifærið fegins hendi, ekki af því að norskur jólamatur væri svona ómótstæðilegur í okkar augum heldur freistaði það okkar að fá að versla annars staðar en í litlu búðinni á eyjunni okkar. Þannig æxlaðist það að við slógum eigið met í því að vera snemma í því með jólagjafirnar þessi jólin, og reyndar með jólamatinn líka því við notuðum tækifærið til að versla inní hnetusteikina og annað sem ekki má vanta í jólahaldið. Við fengum versta veður sem mögulegt er að fá í svona bæjarferð, stormurinn Berit sem gekk berserksgang í Færeyjum gekk yfir nóttina fyrir ferðina og var hvergi nærri hættur um morguninn þegar við fórum fótgangandi út að höfn til að taka bílferjuna þar sem hurtigbåten hafði verið aflýst vegna veðurs. Við náðum að rennblotna við það að arka götur Mo i Rana og verða skítkalt en eftir standa samt bara hlýjar minningar frá deginum.

Við gerðum okkar besta til að halda upp á aðdraganda jóla, m.a. með því að baka á aðventunni og gæða okkur á piparkökum. Reyndar voru súkkulaðismákökurnar hrærðar saman úr pakkadeigi og piparkökurnar komu í öskju keyptri í búðinni, en þegar haft er í huga að við erum ekki með ofn inn í kofanum okkar heldur verðum við að klæða okkur í skjólfatnað og rölta yfir sleipar klappir og vaða polla til að komast að ofninum, þá finnst mér það vel af sér vikið.

Á Þorláksmessu vorum við komin í jólafrí og gátum notið þess að útbúa hnetusteik í ró og næði og gera lokajólainnkaupin um kvöldið. Já, um kvöldið sagði ég! Búðin okkar var opin til hvorki meira né minna en níu um kvöldið! Það var varla að við vissum hvaðan á okkur stæði veðrið.

Á aðfangadag ákváðum við að sækja messu klukkan fjögur sem hafði verið auglýst í áðurnefndri búð. "Sing in julen sammen" var loforðið sem dreif okkur af stað, og sá ég fyrir mér að við sætum prúð og stillt og syngjum með englaröddum Heims um ból og aðra jólasálma. Því varð ég ekki lítið hissa þegar að loknu ávarpi öll sóknarbörn stóðu upp sem einn maður og tóku að færa til stóla svo við ættum nú öll auðveldara með að athafna okkur í kringum þetta líka stóra jólatré sem hafði verið skreytt og komið fyrir á miðju kirkjugólfinu. Já, nú skyldi dansað í kringum jólatréð. Ég var eitthvað efins í fyrstu en svo fellur hver heilvita maður fyrir jólalögum og hringdans, annað er bara ekki hægt.

Þegar heim var komið gerðumst við mjög þjóðrækin og hlustuðum á Rás 1 hringja kirkjuklukkunum og til að vera í takt við íslenska vitund og þjóð hringdum við inn jólin að íslenskum tíma. Svona erum við rómantísk inn við beinið. Jóladegi vörðum við svo framanaf heima með nef ofan í bók og lúkur í konfektkassa, og seinnipart dags röltum við svo yfir í næsta hús til að fagna jólum að filippískum sið. Þar tók á móti okkur anganin af soðnum grjónum og steiktum fisk í soja sósu. Þetta var eins fjarri hefðbundu íslensku jólahlaðborði og hægt er að hugsa sér og ég hugsaði bara: Júhú! Maturinn var frábærlega góður og nú verða varla jól héðan af án soðinna grjóna og soja sósu!

Gamlárskvöldi vörðum við svo í félagsskap nokkurra vina. Kvöldið var skemmtileg blanda af norskum, kanadískum og búlgörskum hefðum. Mest þótti mér koma til búlgörsku bökunnar banitsa. Hún er einhvers konar ósætt ostabrauð sem hefð er fyrir að bera fram á þessu kvöldi í Búlgaríu. Í bökuna er svo stungið nokkrum vel völdum óskum og kveðjum sem maður svo fær í hendurnar með sneiðinni sinni. Mér var spáð mikilli hamingju og nýju húsi á nýju ári á meðan Baldri var lofuð ný vinna.

Á miðnætti fórum við svo út til að fylgjast með herlegheitunum á eyjunni. Ólíkt öðrum byggðarkjörnum í Noregi má skjóta upp flugeldum á svona afskekktri eyju og það ku vera árleg keppni milli eyjanna Lovund og Sleneset, um það hver skyldi ná að skjóta upp meiru. Það kemur kannski engum á óvart að heyra að fyrir okkur var þetta óttalegt blístur og væl enda vön algjörri bilun heima fyrir.

Gleðilegt nýtt ár 2012! Megi nýja árið færa okkur öllum mikla gleði og hamingju, hugrekki til að grípa tækifæri sem okkur bjóðast og sjálfsöryggi til að vera við sjálf. Þetta verður massa fínt ár, ég er alveg með það á hreinu!

Aðventa

Jólamaturinn

Afmæli

Búlgörsk banitsa með heillaóskum

Nýtt ár!

7 ummæli:

Unknown sagði...

Gaman að þessu! Skemmtilegar myndir líka! Húrra fyrir Hnotskurn og ykkur!

Augabragð sagði...

Gaman að sjá færslu frá ykkur og fallegar myndirnar ykkar!

Já og takk fyrir jólakortið - mér þótti mjög vænt um það :)
Kv. Saló

ásdís maría sagði...

Húrra fyrir þér líka Ólöf, takk fyrir að kíkja við á hnotskurnina :) Knús á Snata of course!

ásdís maría sagði...

Saló, ertu komin með bloggsíðu!? Jeminn, ég er svo spennt að kíkja, hún lítur svo girnilega út! Verð að fara að senda þér línu skvís :)

Augabragð sagði...

Já einhverntíman er allt fyrst! ;) Heyrumst dúlla!

Tinnsi sagði...

Gleðilegt nýtt ár Ásdís og Baldur! Æðislegar sögur og myndir.

ásdís maría sagði...

En gaman að heyra frá þér Tinna! Ég var einmitt að sniglast á síðunni þinni í gær í fyrsta sinn í langan tíma og var alveg hissa á sjálfri mér fyrir að hafa ekki kíkt við svona lengi. Ég var svo ánægð að sjá að þú værir enn að blogga. Alltaf svo gaman að lesa pælingar og daglegt líf hjá ykkur skötuhjúum :) Gleðilegt nýtt ár og til hamingju með bumbubúann!