sunnudagur, 26. ágúst 2012

Berjamór á Tortu

Það var haldið á Tortu í gær, jörð í Haukadal sem er í eigu fjölskyldu Baldurs. Í bakgarðinum er Strokkur sem leikur sínar listir svo þetta er allt frekar tilkomumikið.

Venjan er sú að halda Tortudag á vorin og þá höfum við farið og borið áburð á landið. Nú er hins vegar svo komið að landið er að miklum hluta gróið og grænt og því var blásið til síðsumarshittings. Svo heppilega vill til að síðsumur og berjalyng eru gott kombó.

Við komumst að því við komuna á Tortu að það er eiginlega þörf á því að halda gróðrinum í skefjum frekar en hitt. Baldur fór því í það ásamt öðrum að klippa til runna og annan gróður á meðan við hin komum okkur fyrir í lynginu með tínur og dalla.

Það er ansi afslappandi iðja að tína ber undir berum himni. Við fengum smá gjólu en annars var fínt veður og þurrt en þurrkurinn er einmitt svo mikilvægur þeim sem eru í berjamó. Svo var ekki verra að lyngið var vel blátt og við náðum að tína vænan slurk þrátt fyrir að mörg berjanna væru farin að láta á sjá.

Þegar kom að því að borða nestið fengum við inni í bústað á landinu og sá vakti mikla hrifninu. Það er ekki amalegt að eiga bogadreginn og bjartan bústað á besta stað á landinu, við vorum öll sammála um það.

Svo er bara spurning hvað maður gerir sniðugt með öll þessi ber sem tíndust ofan í dallinn? Ég er með hugmynd...
Á Tortu í berjamó
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled
 
Skyr með bláberjum og rjóma

Engin ummæli: